154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[18:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er kannski bara dæmi um það hversu mikill pólitískur stöðugleiki hefur verið lengi, að þetta er ekki daglegt brauð. Ég var bara að vara við því að þetta yrði daglegt brauð. Mér finnst rökin, sem hv. þingmaður lagði fram í máli sínu, ekki vera mjög fókuseruð — afsakið að ég skuli sletta. Mér fannst vera vaðið út um allan völl. Það er alveg hægt í pólitískri umræðu, eldhúsdagsumræðu eða á kosningafundum, og það getum við gert alla daga, en í dag erum við, vegna þessarar tillögu, að koma í veg fyrir að haldið verði áfram að ræða önnur dagskrármál. Í dag erum við að taka nokkra klukkutíma í umræðu sem virðist fyrir fram, að mati flutningsmanna, vera tilgangslaus. Tólf af 63, tveir af fimm minnihlutaflokkum hér á þingi búast ekki við því að þessi tillaga hafi neinn tilgang. Hún er ekki einu sinni vel fram sett, ég átti alla vega erfitt með að skilja af hverju, (Forseti hringir.) nema að menn séu bara einfaldlega á móti ríkisstjórninni. Það er ekkert óeðlilegt, minni hluti og meiri hluti.