154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[20:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni. Þetta er uppáhaldskaflinn minn í stjórnarsáttmálanum: Við ætlum að setja loftslagsmálin í forgang. Og það er fjórum eða fimm sinnum sem við ætlum að vera best í heimi. Það byrjar þannig, með leyfi forseta:

„Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu …“

Svo segir:

„Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.“

Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.“

Og í fjórða sinn er talað um að vera í forystu í orkuskiptum á alþjóðlega vísu, fjórum sinnum best í heimi. Og þau trúa þessu sjálf orðið.

En viti menn, það að verða loftslagshlutlaus 2040, — það kom fram í svari ráðherra við skriflegri fyrirspurn — þeir vita ekki einu sinni hvernig á að reikna hlutleysið vegna þess að því sem er sleppt af kolefni og hvernig þeir ætla að fanga það með mýrum, trjárækt og öðru slíku, þeir hafa ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að fara að því að reikna sig hlutlausa. Þetta er svona svipað og að hlaupa 30 kílómetra eða maraþon án þess að hafa metrakerfið.

Oflofið, það minnir mig á Dunning-Kruger áhrifin þar sem þú veist svo lítið um málefnið en þú trúir að þú vitir allt um það. Þetta er alveg klassískt. Það er algerlega borðleggjandi að allt sem stendur í þessu plaggi, það er ekkert að marka það, ekki neitt. Það er nákvæmlega sama með þessa ríkisstjórn. Allt sem þau tala um og segjast ætla að gera, öll þessi verkefni, þau eru stefnulaus. Það er þess vegna sem þessi ríkisstjórn á að fara frá og það þarf að endurnýja umboðið hér í þingræðisríkinu, hver eigi að fara með völdin, og það á ekki að gera það síðar en 7. september næstkomandi.