154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:08]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar og þessar skýringar. Eins og ég fór yfir áðan þá var það kosningaloforð Framsóknarflokksins að öll börn skyldu fá 60.000 kr. vaxtarstyrk óháð fjárhagsstöðu. Mér heyrist af svörum hæstv. ráðherra að ákveðið hafi verið eftir kosningar að það yrði ekki staðið við þetta loforð heldur yrðu hlutirnir gerðir með einhverjum allt öðrum hætti, enda hefðu einhverjar greiningar bent til þess að þetta loforð hefði kannski ekki verið skynsamlegt. Gott og vel. Ég vil kannski fá hæstv. ráðherra til að staðfesta aftur hér í seinni atrennu þann skilning minn að ekki einu sinni þessir tveir hópar sem hæstv. ráðherra minntist á, börn með fötlun og börn af erlendum uppruna, muni fá 60.000 kr. vaxtarstyrk. Er það réttur skilningur hjá mér að ekki verði einu sinni staðið við þetta loforð gagnvart þessum hópum? (Forseti hringir.) Ég kemst ekki í hitt sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um og geri það kannski á eftir.