154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þann 22. mars 2018 lagði ég fram þingsályktunartillögu, eða í rauninni fyrr, um undirritun og fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í janúar 2020 spurði ég hæstv. ráðherra, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, hvort það ætti ekki að fara að drífa í því að samþykkja þessa þriðju valfrjálsu bókun. Hæstv. ráðherra svaraði þá: Jú, endilega, enda er það hluti af þeirri vinnu sem er í gangi vegna farsældarlaganna. Og vissulega þá kom sú ályktun inn í gegnum farsældarlögin sem Alþingi samþykkti, að það ætti að fullgilda þessa bókun, en ekkert bólar á henni alveg frá síðasta kjörtímabili og þarsíðasta í rauninni líka.

Vegna þessarar blessuðu valfrjálsu bókunar, sem gefur börnum aðgang að barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem við höfum m.a. sent fulltrúa til að starfa við, merkilegt nokk, þá mega íslensk börn ekki leita til þeirrar nefndar enn þá samkvæmt íslenskum lögum. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra einfaldlega: Hvenær munum við klára þetta?