154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:33]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta og segja að við deilum þeirri sýn um þann mannauð sem þarna er á ferð og í rauninni miðað við öll tölfræðigögn — talandi um tölfræðigögn — í hversu mikilli innviðaskuld við erum gagnvart þessum ágætu nýju Íslendingum. Staðreyndin er sú að það þarf að stórauka fjármagn til að þjónusta þennan hóp sérstaklega á næstu árum. Það eru ekkert mörg ár síðan það voru mjög fáir nemendur í framhaldsskóla sem voru með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Það hefur stóraukist. Þetta er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á að þurfi að skapa fjárhagslegt svigrúm fyrir og er ástæðan fyrir því að við lögðum af stað í ákveðna vegferð við að skapa fjárhagslegt svigrúm inni í framhaldsskólakerfinu með sameiningum, sem við drógum til baka vegna þess að aukið fjármagn kæmi með öðrum hætti. Aukið fjármagn er að koma inn í kerfið bæði í gegnum inngildingaraðgerðir sem ég vitnaði hér til og er gríðarlega mikilvægt að skili sér, en líka í gegnum aukningu til framhaldsskólans. Það þarf að gerast með fjölþættum hætti, svo að ég komi að fyrirspurninni sjálfri. Við þurfum til að mynda að stórauka námsgagnaútgáfu fyrir íslensku sem annað tungumál inni í framhaldsskólunum. Við þurfum að stórauka þjónustu inni í framhaldsskólanum við þessa nemendur, ekki bara með fjölgun kennara heldur líka með annarri stoðþjónustu. Við þurfum fjölbreyttari aðgerðir í því hvernig við nálgumst þennan hóp en fyrst og síðast er staðreyndin sú að það þarf aukið fjármagn til að sinna því og það erum við að fá inni í þessari aðgerð. Ný Miðstöð menntunar og skólaþjónustu á að fá þarna aukið vægi. Þar erum við nú að undirbúa aðgerðir sem við getum kynnt á næstu vikum, sem eru hluti af inngildingu, um teymi sem geta aðstoðað skóla við að bregðast við og fara af krafti í inngildingu. En námsgögnin verða að fylgja, stuðningur við kennara o.s.frv.