154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra talaði um mikilvægi virkni grunnskólanema og ungmenna í samfélaginu og í skólastarfi. Það hefur verið talað um vellíðan í skólastarfi og í samfélaginu og um inngildingu. Ég er á gömlum kunnuglegum slóðum. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig virkni og vellíðan grunnskólanema er sem kann ekki að lesa, sem les sér ekki til gagns. Við erum ekki að tala um að hann geti lesið Shakespeare, Laxness eða Þórberg Þórðarson heldur les hann sér ekki til gagns. Hann nær ekki grunnfærninni. Þetta er hluti af inngildingunni líka. Vissulega er inngilding barna innflytjenda gríðarlega mikilvæg en það er líka inngilding þessara nemenda sem ná ekki grunnfærninni.

Spurningin til hæstv. ráðherra er þessi: Er hann með einhverja aðgerðaáætlun varðandi lestur og lestrarkennslu í landinu, sem hann ber ábyrgð á samkvæmt forsetaúrskurði? Hann ber ábyrgð á grunnskólakerfi landsins samkvæmt lögum og forsetaúrskurði og hefur stjórntæki aðalnámskrár til þess að koma því til leiðar hvaða aðferðafræði hann vill beita. Það er ekki hægt að vísa til skólanna, að þeir séu að gera hitt og þetta, hér og þar í landinu. Það er enginn að biðja hann um að fara í kennslustofurnar, svo það liggi fyrir. Hver er aðgerðaáætlunin, liggur hún fyrir? Liggur hún líka fyrir varðandi náttúrufræðikennslu og stærðfræði, sem við erum að standa okkur alveg hræðilega í? Þetta lýtur ekki bara að nemendum sem ná ekki grunnfærninni heldur erum við líka að svíkja afburðanemendurna. Við erum ekki með fólk sem skarar fram úr á þessu sviði og við fáum ekki fólk sem skarar fram úr í lífinu ef það nær ekki að njóta sín í grunnskólum. Hver er aðgerðaáætlunin og hvaða aðgerðir ætlar ráðherra að fara í? Þá er ég ekki að tala um að láta aðra gera hlutina fyrir sig. Hvernig ætlar hann að nota stjórntæki sem hann hefur samkvæmt lögum, t.d. aðalnámskrá?