154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun 2025–2029 og hún byggist á fyrirliggjandi fjármálastefnu hæstv. ríkisstjórnar og þeim markmiðum sem þar koma fram. Það er óhætt að segja að sá tími sem liðinn er af kjörtímabilinu hafi verið viðburðaríkur í íslensku samfélagi og á heimsvísu. Ytri þættir, svo sem heimsfaraldur, náttúruhamfarir, jarðhræringar og stríð, hafa haft gríðarleg áhrif á efnahagsþróun landsins og umtalsverð. Árleg endurskoðun áætlunarinnar, út frá þeirri þróun og þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni, er sérstaklega mikilvæg í því samhengi og endurspeglar þessar áskoranir, getum við sagt, virðulegi forseti.

Fjármálaáætlunin sem við tökum upp hér árlega tekur mið af þessari stöðu mála og sá er hér stendur fullyrðir að hún sé ábyrg og í takt við árangursríka stefnu stjórnvalda og áherslu á að ná niður verðbólgu, styðja við peningamálastefnu og verja um leið lífskjör og velferð í samfélaginu. Þetta er áætlun um að verja sterka stöðu. Það er mikil samstaða um að ná niður verðbólgu og langtímakjarasamningar á almennum vinnumarkaði því allra hagur. Það er jafnframt mikilvægt, út frá gildum sem við setjum okkur í opinberum fjármálum, að huga reglulega og ávallt að viðnámsþrótti ríkissjóðs. Við þekkjum það núorðið hversu mikilvægt það er að geta tekist á við verkefni á borð við faraldur og jarðhræringar og þær áskoranir sem þeim fylgja.

Útgjöld til heilbrigðismála eru sem fyrr umfangsmest á tímabili áætlunarinnar og vega um hátt í þriðjung af rammasettum útgjöldum. Hér er hægt að rekja þá sögu að markvisst hefur verið forgangsraðað í þágu velferðar og stoðir heilbrigðiskerfisins styrktar umtalsvert með auknum fjárveitingum umfram raunvöxt. Sú styrking sem hefur átt sér stað á innviðum á öllum helstu málefnasviðum gerir okkur kleift að hrinda í framkvæmd samþykktri heilbrigðisstefnu og í takt við þá stefnu hefur markvisst verið unnið að því að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu.

Skilvirkni og hagkvæmni og besta nýting á framleiðsluþáttum kerfisins eru undirliggjandi nálgun samhliða á öllum sviðum, samhliða því að auka fjárveitingar í verkefnin. Þetta snýr m.a. að innleiðingu á þjónustutengdri fjármögnun á sjúkrahúsin okkar, Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri, og á árinu 2023 voru stigin afgerandi skref við innleiðingu þess á sjúkrahúsunum tveimur sem nú eru fjármögnuð í meira mæli með þjónustutengdri fjármögnun í gegnum samning við Sjúkratryggingar Íslands.

Sé horft inn í gögnin sem birtast í starfsemistölum Landspítala, til að mynda á síðasta ári, þá er það ljóst að þjónustutengd fjármögnun hefur haft afar jákvæð áhrif á rekstur og aukið gagnsæi og afköst sem jukust umtalsvert á síðasta ári. Það má rekja í starfsemistölum 8% fjölgun á skurðaðgerðum sem framkvæmdar voru á spítalanum. Enn fremur fjölgaði legum um 4,3% og heimsóknum á dag á göngudeildir um 7,7%. Hlutfall dagdeildaraðgerða hefur nær tvöfaldast milli ára og þetta eru allt jákvæðir mælikvarðar á hagkvæma þróun. Þá hafa stafræn samskipti aukist til muna eða um 7% en við vitum að stafvæðing í heilbrigðisþjónustunni er lykilþáttur í því að okkur takist að jafna framboðið á móti sívaxandi eftirspurn og lýðfræðilegum breytingum samfélagsins og veita þar með vaxandi hópi sjúklinga góða og árangursríka þjónustu í framtíðinni.

Þjónustutengd fjármögnun er afkastatengd og stuðlar að hagkvæmni í rekstri og endurspeglar raunverulegt umfang þjónustunnar og raunkostnað við veitingu hennar. Þessir samningar Sjúkratrygginga um þjónustukaup byggjast á sama grunni og kostnaðargreining sem á að gegna lykilhlutverki og að það verð sem ríkið greiðir fyrir þjónustuna endurspegli kostnaðinn við að veita hana. Það er mikilvægt að við náum í auknum mæli þarfa- og kostnaðargreiningu fram og eflum Sjúkratryggingar á því sviði.

Það er samstaða um að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi óháð efnahag og búsetu, virðulegur forseti. Það er samstaða um það hjá íslensku þjóðinni og samstaða um það í íslenska heilbrigðiskerfinu og það er samstaða um það á Alþingi. Þetta er kjarnaverkefni okkar í heilbrigðisráðuneytinu og stefna ríkisstjórnarinnar er afar skýr varðandi þennan þátt. Það fjármagn sem veitt er til heilbrigðismála árlega fer m.a. í það verkefni og við leggjum áherslu á að hafa rétta þjónustu á réttum stað á réttum tíma og þar gegnir heilsugæsla mikilvægu hlutverki, jafnframt því að nýta framleiðsluþættina skynsamlega, ekki síst mannauðinn, þekkinguna. Ég ætla að taka dæmi um það sem ég kýs að kalla lýðheilsutengdar aðgerðir sem eru ekki hluti af inngripum í fjölveikindi eða í bráðaástand heldur einskiptisaðgerð sem getur snúið viðkomandi einstaklingi aftur til heilsu og samfélagslegrar virkni.

Það eru sameiginlegir hagsmunir samfélagsins, bæði efnahagslegir og félagslegir, að tryggja tímanlegt aðgengi að slíkri þjónustu sem veitt er á réttu þjónustustigi og styður við virkni einstaklingsins í samfélaginu. Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga þessum aðgerðum og þar get ég nefnt liðskiptaaðgerðir, endómetríósuaðgerðir, kvenheilsuaðgerðir, þetta myndi gilda um augnsteinaaðgerðir og fleiri aðgerðir sem tengjast lýðheilsu og virkni. Sem dæmi fjölgaði valkvæðum liðskiptaaðgerðum á mjöðm og hnjám. Þær voru samtals yfir 2.000 árið 2023 og hafa aldrei verið fleiri, fjölgaði um rúmlega 800 milli ára og nemur aukningin um 60%. Miðgildi biðtíma eftir slíkum aðgerðum fór úr tæpum tíu mánuðum í rúma fjóra mánuði á Landspítala frá byrjun til loka árs 2023. Sömu þróun getum við séð á opinberu stofnununum okkar sem geta þá nýtt tímann í aðrar aðgerðir og sú þróun er mjög jákvæð auk þess sem helmingi færri leita utan lands í þessa þjónustu þannig að þetta hefur þegar skilað þessum árangri og þetta hefur þegar skilað auknum afköstum inni á sjúkrahúsum okkar. Þetta er dæmi um góða samvinnu á milli eininga í kerfinu.

Á síðasta ári tóku gildi samningar um þjónustu sérgreinalækna til 5 ára og batt það enda á tæplega fimm ára samningsleysi sem dró fram jafnræði í aðgengi að þjónustunni út frá efnahag. Það var algjör kjarni í því að ná samningum, það var annaðhvort að fara í stefnuna og breyta henni eða ná samningum.

Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á að haldið verði áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi og ég get nefnt hér mjög ánægjulega samninga sem við höfum náð við bæði tannréttingarlækna og tannlækna um þessa þjónustu sem skiptir sköpum fyrir fólkið í landinu.