154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að verið sé að vinna að þessum málum. Mig langar samt að minna á að það er mikilvægt að horfa ekki eingöngu til íþrótta heldur til almennrar virkni barna sem og fullorðinna í samfélaginu. Að sjálfsögðu eru íþróttir stór partur af því en það er mikilvægt að fókusinn festist ekki einungis þar.

Í seinni spurningunni langar mig að spyrja út í annað. Hér áðan var rætt um hjúkrunarheimili og stöðu ungs fólks. Nýleg umfjöllun Kveiks um þau mál var auðvitað sláandi. Skil ég ráðherra rétt, því að ég hef sjálf efasemdir um að ungt fólk eigi að vera á hjúkrunarheimilum, að hann sé að skoða aðrar leiðir til þess að búseta fólks sem svo sannarlega er ekki komið á eftirlaunaaldur verði styrkt með öðrum og frekari hætti? Það er alveg ljóst að þessi mál eru svo sannarlega ekki í nógu góðum farvegi akkúrat núna.