154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:35]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil taka fram að ég er ekki að biðja um pólitískan rökstuðning. Ég bið bara um svör, já eða nei. Í fjármálaáætlun er ekki að sjá merki um uppbyggingu lokaðs búsetuúrræðis. Það er því eðlilegt að ég spyrji hvernig rekstri og uppbyggingu þessa „úrræðis“ verður háttað. Ég spyr sérstaklega um þetta verkefni vegna þess að þarna birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að tryggja öryggi landsmanna. Það er merkilegt ef ráðherra lítur á byggingu varðhaldsbúða sem hugsaðar eru fyrir börn sem ákveðið forgangsmál. Já, vissulega þarf Ísland að búa til forsvaranlegar vistarverur fyrir fólk sem bíður endursendingar — vistarverur ekki varanlega búsetu — nema ætlunin sé að láta börn daga uppi á bak við læstar dyr. En okkur í Samfylkingunni hugnast frumvarpið ekki eins og það lítur út í samráðsgáttinni og við viljum vera mjög skýr með það; annað en þessi ríkisstjórn sem virðist ekki geta fjármagnað mannúð í fangelsunum, hvorki gagnvart föngum né starfsfólkinu sjálfu. (Forseti hringir.) Hvor hópurinn þarf meiri fókus í frelsissviptingarmálum, barn á flótta eða dæmdir kynferðisbrotamenn?