154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður óskar eftir skýrum svörum og ég taldi mig hafa svarað skýrt í fyrra andsvari. Hv. þingmaður spyr mig hvort ég hyggist koma á lokuðu búsetuúrræði. Já. Það er svarið, já. Ég sagði hér í fyrra andsvari að ég hyggst leggja fram frumvarp á næsta þingi, strax í haust, um búsetuúrræði með takmörkunum til þess líka að tryggja mannsæmandi aðstæður fyrir þá einstaklinga sem hafa fengið synjun um dvöl hér á Íslandi og ber að yfirgefa landið. Við erum eina ríkið í Schengen-samstarfinu og eina ríki Norðurlandanna sem erum ekki með búsetuúrræði af þessu tagi. Okkur ber að koma því upp ef við ætlum að vera í samstarfi þjóða hvað það varðar. Varðandi fjármagnið þá hefur það ekki verið svo að (Forseti hringir.) eitthvað sem ekki er þegar orðið að lögum sé sett í fjármálaáætlun.