154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í gangi er heildarendurskoðun á lögum um almannavarnir. Það skiptir mjög miklu máli. Sá hópur sem er þar að störfum er búinn að fara hringinn í kringum landið og tala, að ég tel, við allar almannavarnanefndir landsins sem og sveitarstjórnir.

Ég vil líka árétta að nú í mars undirritaði ég, ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir viljayfirlýsingu þess efnis að sveitarfélögin eigi meira samstarf við almannavarnir. Það er þannig að almannavarnir eru á forræði sveitarfélaga og þær eiga að gera áætlanir og eiga að vera með almannavarnanefndir. Það er gríðarlega mikilvægt að samstarf við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og almannavarnanefndir hringinn í kringum landið sé gott.

Hv. þingmaður spyr hvort almannavarnir séu nógu burðugar til að takast á við svona stór verkefni eins og hafa verið í gangi síðustu misserin á Reykjanesi. Ég tel svo vera. Ég tel svo vera, enda er það mín skoðun að það hafi tekist afskaplega vel til að forða bæði manntjóni og tjóni á verðmætum. Ég vil leggja áherslu á það, og það kemur fram í fjármálaáætlun, að verið er að setja aukið fé til almannavarna ríkislögreglustjóra þar sem við teljum samt sem áður nauðsynlegt, vegna fjölgunar verkefna, að fjölga starfsmönnum hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.