154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Þegar 9. kaflinn, sem varðar almanna- og réttaröryggi, er rýndur segir, með leyfi forseta:

„Helstu breytingar frá gildandi fjármálaáætlun 2024–2028 og fjárlögum 2024 snúa að almennri aðhaldskröfu upp á 1% sem nemur 1.537 millj. kr.“

Öryggi fólksins í landinu er algjör grunnþjónusta, algjör frumskylda. Það gengur ekki upp að ætla í pólitísku samtali að ræða um innviði eða þjónustu án þess að nefna löggæslu. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í það — mér hefur ekki fundist það alveg skýrt og ég heyrði ekki hvað hún sagði um lögregluna eina og sér í sinni fyrstu ræðu — hver svörin eru þar.

Í sérstakri umræðu síðastliðinn febrúar, sem ég óskaði eftir hér á Alþingi, um fáliðaða lögreglu var á hæstv. dómsmálaráðherra að skilja að einhverra breytinga væri að vænta varðandi almenna löggæslu í landinu. Hún nefndi í því samhengi aukinn vopnaburð, alvarlegri afbrot og að skipulögð brotastarfsemi hefði aukist verulega. Hæstv. ráðherra nefndi líka í því samhengi — og ég var ánægð með að heyra þá áherslu sem hún setti á að ógnir gegn öryggi ríkisins hefðu aukist á sama tíma og að tengja þetta saman.

Á höfuðborgarsvæðinu starfa núna færri lögreglumenn en þegar embætti lögreglustjórans var stofnað 2007. Á því tímabili hefur fólki fjölgað um 25% en lögreglumönnum hefur fækkað um 13%. Það hefur engin raunveruleg fjölgun orðið þó að einhverjar viðbætur hafi orðið vegna þess að stytting vinnuvikunnar hefur gert það að verkum að þar eru menn aðallega að halda í horfinu. Aðhald hjá stofnunum eins og lögreglu, þar sem um 80–90% af rekstrarfé fara í laun, hefur strax áhrif.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvers er að vænta í næsta fjárlagafrumvarpi miðað við þær áherslur sem sjást í fjármálaáætlun? (Forseti hringir.) Erum við að tala um 1% aðhaldskröfu á almenna löggæslu í landinu? Ef það er þannig að hún birtist ekki á næsta ári kemur hún á næstu árum áætlunarinnar?