154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er gott að við tvö erum sammála um að þetta er ekki svo lítið útlendingafrumvarp heldur mun það skipta máli. Ég er sammála hv. þingmanni að það er afar brýnt að þetta frumvarp verði samþykkt sem fyrst hér á Alþingi vegna þess að það skiptir höfuðmáli í því að við náum betri stjórn á þeim aðstæðum sem nú eru í landinu í þessum málaflokki. Ég vil sömuleiðis fá að nefna að í febrúar sammæltist ríkisstjórnin um heildarsýn í þessum málaflokki. Þar voru tíu aðgerðir settar fram og einn liður í því eru breytingar á útlendingalögum. Ég hef sömuleiðis sagt það að við höfum ekki náð því hér á Alþingi og hér á Íslandi að gera nauðsynlegar breytingar á útlendingalögum með reglubundnum hætti þannig að við getum brugðist við breyttum veruleika í þessum síkvika málaflokki. Það gera löndin í kringum okkur og það þurfum við að gera. Þess vegna hyggst ég sömuleiðis koma með breytingu á útlendingalögum í haust.