154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:23]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna sem beint er til mín og varðar kynjahalla innan Landhelgisgæslunnar. Nú hefur hallað á konur í þessum störfum, hvort sem það er hjá Landhelgisgæslunni eða lögreglunni. Hins vegar hefur á síðustu árum orðið umtalsverð fjölgun kvenna, bæði hjá lögreglu og hjá Landhelgisgæslunni. Konum hefur fjölgað þar umtalsvert og ég get nefnt sem dæmi að þær eru orðnar þyrluflugmenn og sinna öðrum störfum. Það er brýnt að við höldum áfram að gera þessi störf aðlaðandi fyrir öll kyn þannig að allir eða öll sjái tækifæri í því að sinna þessum mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Það er verkefni okkar allra að sjá til þess að svo sé.

Hv. þingmaður spyr mig sömuleiðis um hús viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu og um þá frestun sem þar hefur orðið eða hliðrun á því verkefni. Nú er það svo að í mínu ráðuneyti er ég að forgangsraða. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru margar stofnanir viðbragðsaðila sem þurfa að komast í betra húsnæði. Hins vegar er útilokað að við getum verið með tvö stór verkefni, bæði þá byggingu og nýtt fangelsi, í gangi á sama tíma. Ég taldi að undirbúningurinn að húsi viðbragðsaðila væri ekki kominn það langt á veg að við gætum leyft okkur að hliðra því verkefni um nokkur ár og byggt fangelsi á sama tíma.