154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:25]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Við deilum í fljótu bragði sýn á jafnrétti innan viðbragðsaðilastéttarinnar, hvort sem um er að ræða lögreglu eða Landhelgisgæsluna, ég held að við þurfum ekki að eyða tíma okkar í dag til að rökræða um hvort það sé mikilvægt verkefni. Ég ákvað hins vegar að minnast á þetta orðalag í fjármálaáætlun vegna þess að það skiptir máli hvernig hlutirnir eru settir fram. Kynjuð fjárlagagerð er verkefni sem skiptir miklu máli. Okkur ber skylda til að greina þýðingu forgangsröðunar á fjármunum og hvernig hún hefur áhrif á kynin. En að segja það með beinum hætti að fjármögnun viðbragðsaðila sé til þess fallin að stuðla að ójafnrétti kynjanna er ekkert hafið yfir gagnrýni og ég vil beina því til hæstv. ráðherra að þessi umræða verði tekin í ríkisstjórn eða alla vega að fá fjármálaráðherra til að koma í veg fyrir að svona sé sett fram aftur. Þetta er í takt við þá umræðu sem ég átti við hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra. Ég ætla hins vegar að segja að það er mjög mikilvægt að viðbragðsaðilar fái tímabundið úrræði í sínum húsnæðismálum sem allra fyrst.