154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég get svarað því til að ég hyggst ekki banna spilakassa. Ég ætla heldur ekki að leggja neinn dóm á þær fjáraflanir sem þau samtök sem hv. þingmaður nefnir ástunda, ég ætla ekki að setjast í það dómarasæti. Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort ekki sé hægt að fjármagna þessa starfsemi á fjárlögum. Þá langar mig að minna hv. þingmann á að rekstur þessara félaga er oft í umræðunni og sitt sýnist hverjum hvað það varðar. Ég hygg t.d. að ekki sé samstaða um það hjá Landsbjörgu að fara á fjárlög íslenska ríkisins þar sem þetta eru ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Það yrði grundvallarbreyting í starfsemi þeirra ef þau færast yfir á fjárlög. Hins vegar skiptir vitaskuld máli að fyrir þá einstaklinga sem ekki ráða við að taka þátt í þeim leikjum sem þarna er boðið upp á sé aðstoð í boði og meðferð fyrir þá sem þurfa á því að halda.

Ég legg áherslu á að þetta er mál sem hefur verið í deiglunni í nokkuð langan tíma og kallað hefur verið eftir því af hálfu þessara aðila að dómsmálaráðuneytið jafni þann aðstöðumun sem er á milli Happdrættis Háskólans og hinna félaganna og ég hyggst skoða það.