154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég vil segja hv. þingmanni að ég deili þeirri skoðun að ég vil sjá, eins og ég hef sagt hér fyrr í dag, lögregluna og fangelsin undanþegin aðhaldskröfu, rétt eins og menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Ég held að ég og hv. þingmaður getum sammælst um það að það viljum við sjá til frambúðar, undir það tek ég. Hins vegar vil ég ítreka að í þessari fjármálaáætlun þurfum við að sýna aðhald. Það er leiðinlegt, það getur verið erfitt og það getur verið flókið en óumflýjanlega getum við ekki gert neitt annað í stöðunni eins og hún er. Ég deili því nefnilega líka með hv. þingmanni að við getum ekki ár eftir ár rekið ríkið með halla.