154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Forseti. Ég geri hér í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 varðandi þau málefnasvið sem undir mig heyra sem utanríkisráðherra. Það eru utanríkismál og alþjóðleg þróunarsamvinna. Sú mynd sem blasir við okkur á alþjóðavettvangi í dag kallar á víðtæka hagsmunagæslu utanríkisþjónustunnar til varnar öryggis- og viðskiptahagsmunum og þeim gildum um mannréttindi og lýðræði sem við höfum í heiðri. Hún kallar jafnframt á afgerandi framlag Íslands til velsældar, mannúðaraðstoðar og síðast en ekki síst öryggis og friðar í heiminum. Þetta endurspeglast í áherslum áætlunarinnar þar sem gert er ráð fyrir vaxandi umfangi varnartengdra verkefna og þróunarsamvinnu á tímabilinu. Það er mikilvægt að Ísland verði áfram trúverðugur samstarfsaðili í varnarmálum og leggi enn frekar sitt af mörkum til varna Íslands, Atlantshafsbandalagsins og aðildarþjóðanna. Hlúa þarf að EES-samstarfinu sem er mikilvægasti samvinnuvettvangur Íslands á sviði utanríkisviðskipta og veitir um leið fótfestu á óróatímum í alþjóðamálum. Utanríkisþjónustan þarf nú sem fyrr að hámarka möguleika íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum með fríverslunarsamningum á borð við þann sem nýlega var undirritaður milli Indlands og EFTA-ríkjanna.

Framlög til stuðnings Úkraínu eru þýðingarmikið framlag til öryggis og varna Íslands og framgangs þeirra gilda sem eru nauðsynleg tilvist okkar fullveldis og er gert ráð fyrir að 4 milljörðum verði varið til stuðnings við Úkraínu á hverju ári út áætlunina til samræmis við þingsályktunartillögu þar að lútandi sem lögð var fram í mars. Gert er ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 4, til utanríkisþjónustu, aukist á tímabili áætlunarinnar úr 15,8 milljörðum árið 2024 í 16,9 milljarða árið 2029. Fjárframlög til kjarnastarfsemi utanríkisþjónustu, þ.e. ráðuneytis og sendiskrifstofa, dragast saman um 9% á tímabili fjármálaáætlunar vegna almennrar aðhaldskröfu sem nemur um 744 millj. kr. og verður hún útfærð í fjárlögum hvers árs. Auk þess er gert ráð fyrir niðurfellingu framlags við lok setu Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO á tímabilinu og þá verður unnið að útvistun hluta af starfsemi Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins og breytingu á fyrirkomulagi fjármögnunar Íslandsstofu. Vegna breyttrar stöðu öryggis- og varnarskuldbindinga Íslands aukast framlög til öryggis- og varnarmála til að tryggja rekstur varna innviða og þátttöku í sameiginlegum verkefnum Atlantshafsbandalagsríkja. Munu útgjöld til þeirra á árunum 2025 annars vegar og 2029 nema nærri 80% meira en árin fimm þar á undan. Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs hækka sem nemur ríflega milljarði króna vegna aukins framlags Íslands til uppbyggingarsjóðs EES til samræmis við nýja áætlun sem samið var um undir lok síðasta árs. Að lokum er gert ráð fyrir auknum framlögum til þess að efla útgáfu Schengen-vegabréfsáritana í löndum utan Evrópu til að styðja við ferðaþjónustu. Gert er ráð fyrir að framlög til málefnasviðs 35, alþjóðleg þróunarsamvinna, hækki úr rúmlega 13,1 milljarði kr. árið 2024 í rúmlega 22,2 milljarða árið 2029. Er það að meðtöldum 3,5 milljörðum kr. í framlögum til Úkraínu. Við lok áætlunarinnar er gert ráð fyrir að hlutfall heildarframlaga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nemi 0,42% af vergum þjóðartekjum, sem er aukning úr 0,36% árið 2023. Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands grundvallaðist á stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2004–2028 og í samræmi við stefnuna verður framlögum varið til verkefna sem lúta að uppbyggingu mannauðs, grunninnviða og bættra lífsskilyrða með áherslu á fátækustu ríki heims. Drjúgum hluta framlaganna verður einnig varið til mannúðaraðstoðar til að bregðast við þeirri miklu neyð sem víða hefur skapast vegna átaka og náttúruhamfara.

Virðulegur forseti. Öryggi okkar og sjálfstæði byggist á traustu alþjóðakerfi og virðingu fyrir alþjóðalögum og friðhelgi landamæra. Innrás Rússlands í Úkraínu og önnur hörmuleg átök, líkt og fyrir botni Miðjarðarhafs, sýna svo ekki verður um villst að við þurfum sífellt að hlúa að alþjóðlegu samstarfi og standa vörð um hagsmuni Íslands. Við erum þess vegna að sækja fram í málaflokkum í fjármálaáætlun.

Að lokum örfá almenn orð um framlagða fjármálaáætlun: Ég tel að hún endurspegli ábyrga fjármálastjórn enda eru fjármálareglur uppfylltar og þá má geta þess að hún myndi uppfylla svokallaða útgjaldareglu eða stöðugleikareglu í ríkisfjármálum, nokkuð sem ég tel að við ættum að skoða alvarlega að taka upp sem fyrst. Allt tímabilið eru ríkisfjármálin að vinna gegn þenslu og þannig verðbólgu og þetta er gert með aðhaldi á útgjaldahlið þar sem útgjöld verða ríflega 120 milljörðum lægri undir lok áætlunarinnar en ef þau hefðu fylgt efnahagsumsvifum. Við erum að búa í haginn og snúa vörn í sókn sem er nauðsynlegt, m.a. vegna áhættu og áskorana sem við okkur blasa og ekki síst á alþjóðavettvangi.