154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað vandasamt, og ég næ ekki að fara yfir það á þessari mínútu hér, að veikleikar þessa samnings koma berlega í ljós við núverandi kringumstæður þegar annað stærsta kjarnorkuveldi heims, Rússland, hótar óbeint beitingu slíkra ógnavopna í blóðugri aðför að Úkraínu sem er nágrannaríki þeirra. Samningurinn svarar í engu hvernig tekist skuli á við útlagaríki eins og Norður-Kóreu sem margeflist í kjarnorkuvopnaáætlun sinni. Þessi spurning er því alltaf til staðar, af því að hv. þingmaður nefndi að ekki væri stöðnun á meðal þeirra sem ekki eru með kjarnorkuvopnin en það væri stöðnun meðal hinna. En ekkert þeirra ríkja sem eiga kjarnavopn eru eða ætla sér að verða aðili að samningnum og án þess getur hann ekki skilað tilætluðum árangri. Við munum tala af raunsæjum hætti (Forseti hringir.) um þetta. En því miður höfum við lítið um það að segja.