154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar maður skoðar málefnasvið 4, utanríkismál, í fjármálaáætlun kemur fram að það á að auka hlutdeild Íslands í alþjóðaviðskiptum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig eigi að gera það, hvernig eigi að ná því meginmarkmiði. Það segir að meginmarkmið utanríkisþjónustunnar sé að gæta í hvívetna hagsmuna Íslands o.s.frv. Og svo er talað um að Ísland fái aukna hlutdeild í alþjóðaviðskiptum. Hæstv. ráðherra hefur komið inn á það nokkuð oft í umræðunni að setja eigi varnarmál á dagskrá og að fyrirsjáanleg séu aukin útgjöld til varnarmála. Þá er spurningin þessi: Erum við ekki eingöngu að tala um Landhelgisgæsluna? Það má benda á það að Landhelgisgæslan er náttúrlega strandgæsla, ekki hernaðarleg stofnun og varasamt að fara of langt þar. Það er vissulega mikilvægt að þjónusta þá sem koma hingað til Keflavíkur í loftvarnaeftirlit en lýtur þetta ekki að innra öryggi landsins, að efla Landhelgisgæsluna fyrst og fremst? Það er meginhlutverk stofnunarinnar. Varðandi aukin útgjöld til varnarmála, hvernig sér hæstv. ráðherra það fyrir sér? Hvernig getum við aukið útgjöld til varnarmála öðruvísi en að stuðla að auknum útgjöldum til NATO, í sameiginlega sjóði þar o.s.frv. sem eru þá borgaralegi hluti NATO. Við erum ekki með her, það er alltaf grundvallaratriði hjá okkur í öllum samskiptum hvað það varðar.

Mig langar sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra: Er það krafa frá NATO, frá Bandaríkjunum, að auka útgjöld til varnarmála? Ég nefni Bandaríkin sérstaklega sem hafa verið mjög öflug á undanförnum árum, ekki bara í tíð Trumps heldur Obama og Bush líka, um það að ríki sem hefðu her skyldu setja 2% af þjóðarframleiðslu til hernaðarmála? Er svipuð krafa á okkur hvað þetta varðar?