154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[18:46]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögðin. Ég ætla að viðurkenna að mér kemur þetta jafn mikið á óvart og mörgum öðrum hér í dag að það sé verið að bjóða upp á þetta, þ.e. án tímamarka. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum ekki á fleiri viðvarandi deiluefnum að halda í okkar samfélagi. Ég er satt að segja orðinn hundleiður á deilunni um kvótann og kvótagjaldið og allt þetta, þetta er bara eins og biluð plata ár eftir ár og áratug eftir áratug. Ég heyri í nokkrum útgerðarmönnum sem segjast vera tilbúnir að borga meira, kannski í von um að eyða þessum leiðindum, þetta bara mengar samfélagið, öll þessi umræða sem fer ekki burt fyrr en einhver botn næst. Ég er nú bjartsýnismaður og ég heyri það á stjórnarliðum, einhverjum sem hafa tekið til máls í dag, m.a. hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, það er að hennar mati alla vega til umræðu að setja einhvers konar tímamörk. Ég held að nefndir sem fá þetta til umfjöllunar þurfi bara að gera það að sínu keppikefli að kalla inn fólk og reyna að ná að borðinu þeim sem um þetta véla, fá menn til að sjá að þetta gengur ekki, þetta er ekki góð hugmynd hvorki fyrir samfélagið í dag né þau sem landið munu erfa. Fáum einhverja sanngjarna niðurstöðu í þetta. En svo er hitt sem er það að þetta er ástríðumál fyrir ótrúlega mörgum. Norður-Atlantshafsstofninn, laxinn okkar og að vera yfir höfuð að heimila eitthvað af þessum toga, með fullri virðingu fyrir hinum brothættu byggðum. Þetta er hryllingur í hugum allt of margra og háværra þegna í samfélaginu í dag sem bara þola ekki tilhugsunina. Þannig að mér finnst að við þurfum að afgreiða þetta af mikilli kostgæfni, (Forseti hringir.) hvort sem það verður á þessu þingi eða næstu þingum og kalla eftir góðu, heilbrigðu samráði og sanngjarnri umræðu um heilbrigða lendingu.