154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

listamannalaun.

937. mál
[22:40]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held líka að við þurfum að horfa til framtíðar. Eitt af því sem við finnum mjög fyrir og er vaxandi er gervigreind. Gervigreindin er líklega eitt það stærsta sem mun gerast í tækniframförum á komandi árum. Við þurfum að vera undir það búin og vera með öflugan og breiðan vinnumarkað til að geta tekist á við þessar breytingar sem eru að eiga sér stað. Ég tel að það að sinna þessum skapandi greinum og þessum fjölbreytileika geri okkur betur kleift að takast á við þessar miklu tæknibreytingar. Rannsóknir hafa líka sýnt, sem er afar ánægjulegt fyrir okkur og við getum verið stolt af sem þjóð, að það ríkir oft meiri hamingja og fólk er ánægðara með sitt samfélag þegar öflugur stuðningur er við skapandi greinar. Við getum líka séð að velmegun og hagsæld helst iðulega í hendur við öflugt menningarsamfélag.