154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

715. mál
[17:36]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta og ítreka aftur að gangi þessar áætlanir eftir sem við erum með og náum við að tryggja fjármagn til þeirra munum við sjá umfangsmiklar framkvæmdir við Fjölbrautaskóla Suðurlands, þar á meðal varðandi heimavistina. Varðandi samgönguáætlun og almenningssamgöngur þá eru þær auðvitað ekki beint á mínu borði en það er gríðarlega mikilvægt að við sem stjórnvöld, hvort sem það er ríki, sveitarfélög eða aðrir, séum í auknum mæli — við sjáum að það er að byrja að gerast — í meiri samskiptum við ungt fólk þegar verið er að taka ákvarðanir og forma stefnur. Ég skal bara segja það hér að ég mun taka þetta áfram og beina því til þeirra sem vinna að þessum málum sem lúta að almenningssamgöngum í dreifbýli að skoða sérstaklega stöðu ungs fólks í því sambandi og hvort hægt sé að hlusta betur á þeirra raddir af því að það er gríðarlega mikilvægt og skiptir máli að það sé gert.

Ég vil þakka þingmanninum fyrir að hafa tekið þetta mál upp. Það er ánægjulegt að geta rætt viðbyggingar og framkvæmdir við fjölbrautaskólana í kringum landið og FSu er sannarlega flottur og góður skóli, eins og svo fjölmargir í kringum landið sem eru að gera frábæra hluti á hverjum einasta degi.