154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

þjónusta við ungmenni sem eru ekki í vinnu, virkni eða námi.

1009. mál
[18:05]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ítreka það og vil segja það strax í upphafi að ég held að þetta sé hópur sem við þurfum að gefa miklu sterkari gaum heldur en við höfum verið að gera á undanförnum árum. Ég segi þó, líkt og þingmaðurinn sagði, að það er víða unnið gríðarlega gott starf í þessu, bæði í framhaldsskólunum en líka í einstaka úrræðum og verkefnum sem fjölmargir aðilar vinna að allt í kringum landið.

Það er spurt sérstaklega hvað það eru mörg ungmenni á aldrinum 16–18 ára sem stunda ekki nám. Það má áætla samkvæmt tölum sem við erum með í Innu og mannfjöldaspám Hagstofu Íslands, þegar við rýnum þær, að það séu rétt tæplega 700 ungmenni á aldrinum 16–18 ára sem ekki voru í námi núna á vorönn 2024. Þetta jafngildir um 5% allra ungmenna á aldrinum 16–18 ára en þó er ekki hægt að segja það með vissu og einhver þeirra eru auðvitað í vinnu. En þetta eru þau sem eru ekki í námi og spurt var sérstaklega að því. Það getur verið einhver skekkja í þessum tölum vegna dreifingar fæðingardaga yfir árið en það má gera ráð fyrir að talan sé í kringum þetta.

Síðan benda rannsóknir mjög sterkt til þess að ákveðnir þjóðfélagshópar séu líklegri til þess að vera hvorki í námi né vinnu. Í rannsókn sem var gerð árið 2021 kom fram að ungmenni á aldrinum 16 og 17 ára með erlendan bakgrunn, erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, voru rúmlega tvöfalt líklegri til að vera hvorki í námi eða vinnu og eru þar af leiðandi 7,7% hópsins til samanburðar við 3,3% þeirra ungmenna sem höfðu engan erlendan bakgrunn. Þetta gefur okkur tilefni til að ætla að við séum ekki að grípa þessa nemendur nægilega vel fyrr í skólakerfinu og í samfélaginu. Ef við skoðum þessar tölur sérstaklega og veltum fyrir okkur hvað mun gerast núna til framtíðar, ef við grípum ekki fyrr inn í og betur í leikskóla- og grunnskólakerfinu, þá mun þessi tala hækka vegna þess að það eru fleiri börn að koma með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

Síðan veltir því þingmaðurinn fyrir sér: Hverjar eru skyldur framhaldsskólanna við ungmenni á aldrinum 16–18 ára sem þrífast ekki í framhaldsskóla eða falla undir þessa NEET-skilgreiningu? Fyrir þá sem eru að horfa þá er það í rauninni skammstöfun á, með leyfi forseta, og ég ætla að sletta: „Not in Education, Employment or Training“, þ.e. ekki í námi, vinnu eða þjálfun. Það er þeir sem eru bara óvirkir. Í lögum um framhaldsskóla er sagt að þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla og eigi jafnframt rétt á að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, enda haldi þeir almennar skólareglur. Þannig að samkvæmt lögum, þröngt á litið, lúta skyldur framhaldsskólanna eiginlega fyrst og fremst að því að veita ungu fólki sem sækist eftir innritun í framhaldsskóla viðeigandi nám og gera þeim kleift að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, kjósi það að gera það. Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla ber framhaldsskólanum síðan að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjón, námsaðstöðu, þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir o.s.frv. Hins vegar hafa framhaldsskólarnir ekki yfirsýn yfir ungmenni sem skrá sig ekki í framhaldsskóla eða hefja nám og hverfa svo á braut.

Það er alveg ljóst, miðað við það hvernig tölfræðin er breytileg bara gagnvart uppruna, að framhaldsskólinn þarf að taka betur á til þess að ná þessum nemendum, við sjáum það á bakgrunnsbreytunum, bæði á þeim fjölda sem þarna er en líka á bakgrunnsbreytunum, að framhaldsskólinn þarf tæki og tól til að grípa þessa einstaklinga.

Svo er spurt: Hvaða þjónusta miðast sérstaklega að þessum hópi og er í boði á vegum stofnana ráðuneytisins eða aðila sem ráðuneytið á í samstarfi við? Framhaldsskólarnir sinna margvíslegri þjónustu við nemendur, þar með talið nemendur í brotthvarfshættu. Ráðuneytið á í samstarfi við fjölda aðila sem sinna margvíslegri þjónustu við börn og ungmenni, þar með talið ungmenni sem falla undir þessa NEET-skilgreiningu. Slíkt samstarf er oft í formi styrktar- eða samstarfssamninga, t.d. við Fjölsmiðjuna og önnur slík úrræði sem oftast eru starfrækt í góðu samstarfi við framhaldsskólana. (Forseti hringir.)

Að lokum spurði þingmaðurinn hvort það væri þörf á breytingum í þjónustu við þennan hóp. Svarið við því er já, en ég ætla að fara betur yfir það í seinna svari, af því að ég er búinn með tímann.