154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

921. mál
[18:16]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég hef fullan skilning á þessu og var einmitt búinn að lesa mig í gegnum þetta. Eðli málsins samkvæmt eru skýringar með hverri grein ítarlegri og betra að skafa sig í gegnum það. Ég skil vel að hæstv. ráðherra hafi það kannski ekki alveg á hraðbergi hvaða mögulega aðrir aðilar en þeir sem myndu teljast nýsköpunarfyrirtæki væru þarna undir en treysti því að í meðförum nefndarinnar verði hægt að afla upplýsinga um það og einhverra dæma þannig að maður átti sig aðeins betur á því hvað um ræðir í þessu samhengi. Ég ítreka það sem ég sagði áður að allar breytingar, þó að þær virki smávægilegar, geta haft meiri háttar áhrif og oft vonandi til góða. Til þess erum við jú að reyna að gera breytingar hér. Þá er brýnt að rýna breytingar á skattkerfinu í heildarsamhengi hlutanna þannig að maður sjái þegar eitt er hreyft hér hvaða áhrif það hefur annars staðar.