154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

viðbrögð stjórnvalda við framgöngu Ísraelsmanna í Rafah.

[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það sem við getum gert er að tala skýrt, taka stöðu með alþjóðalögum, koma því skýrt á framfæri að við fordæmum það ávallt þegar alþjóðalög eru brotin. Það liggur fyrir að ísraelsk stjórnvöld hafa gengið of langt. Því hefur ávallt verið haldið til haga að ísraelsk stjórnvöld hafi rétt til þess að verja sig en um það gilda reglur. Það hvernig þau hafa komið fram er einfaldlega þannig að það er of langt gengið. Það sem við gerum er að auka við mannúðaraðstoð, koma skilaboðum á framfæri, treysta á alþjóðakerfið, eins gallað og það þó er, styðja við og tryggja það að þær stofnanir sem taka slík mál til skoðunar, til rannsóknar, með skýrum niðurstöðum séu færar um að gera nákvæmlega það (Forseti hringir.) þannig að menn þurfi að svara fyrir það og það hafi þá afleiðingar þegar og ef alþjóðalög eru brotin.