154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

skerðing persónuafsláttar íslenskra lífeyrisþega í útlöndum.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja að staða fólks á Íslandi er býsna góð og hefur satt best að segja farið verulega batnandi á þeim árum sem ríkisstjórn hefur setið síðan 2017 og kemur þar margt til, þar á meðal margar af aðgerðum ríkisstjórnarinnar en líka einfaldlega vegna þess að hér hefur verið mjög hagfelldur hagvöxtur og hagfellt árferði að mörgu leyti sem hefur gert það að verkum að fólk hefur getað bjargað sér vel. Það er hátt atvinnustig og hefur sjaldan verið hærra, lítið atvinnuleysi og hefur sjaldan verið minna og stuðningskerfi ríkissjóðs virka mjög vel og við höfum verið að lagfæra þau. Væri það þannig að um verulegt meinvarp væri að ræða væri alveg hægt að taka til þess að fara að skera það brott, sem hv. þingmaður er hér að vísa til. En svo er nú ekki. Ég hvet þingmenn og þingmenn Flokks fólksins til að skoða málið og reyndar þingið allt saman mun betur heldur en hingað til hefur verið gert, um hvað þetta mál raunverulega fjallar. Það er einfaldlega þannig að við erum jú með tvísköttunarsamninga við ýmis ríki. Það voru ríki sunnarlega í Evrópu sem voru farin að gera út á það að Norðurlöndin eru einfaldlega með frábært velferðarkerfi, Ísland þar á meðal, sem gerði það að verkum að eini afslátturinn sem fólst í þessum skatti, þessari undanþágu sem var hér frá Íslandi, rann í raun og veru beint inn í ríkissjóð viðkomandi lands en ekki til viðkomandi fólks. Það mætti alla vega mjög auðveldlega halda því fram. Þannig að ég hvet hv. þingmann og þingmenn Flokks fólksins til að skoða málið miklu betur í heild sinni áður en (Forseti hringir.) menn koma með slíkar háværar yfirlýsingar sem ýmsir úr flokki hv. þingmanns hafa gert þó að hann hafi ekki verið einn þeirra.