154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[17:00]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir sína framsögu og óska henni til hamingju með þessa glæsilegu skýrslu. Hún er 158 blaðsíður og mjög ítarleg samantekt. Ég man nú ekki eftir því að hafa séð svona viðamikla og ítarlega skýrslu áður, hvorki frá þessu ágæta ráðuneyti né öðru ráðuneyti. Það er sannarlega vel þess virði að fara í gegnum þetta allt saman en á því gefst ekki kostur hér í stuttu innleggi. Þess vegna ætla ég bara að stikla á því sem mér finnst skipta máli í þessu. Það er búið að fara yfir það sem ég held að við Íslendingar séum öll samstiga í og sammála um, að við ætlum að standa með Úkraínumönnum til hins ýtrasta. Staðan mætti vera betri, það mætti vera betri, jákvæðari og bjartsýnni tónn í þeim sem telja að hér sé kannski sigurinn ekki eins fastur í hendi eða vel í sjónmáli eins og vera bæri. En við höldum áfram. Þetta eru sirka 5,2 milljarðar sem við erum búin að setja í framlög til ýmissa mála, þar á meðal færanleg sjúkrahús, og 4.200 Úkraínumenn hafa hingað verið boðnir velkomnir. Þar mætti kannski reikna einhverja 2 milljarða til viðbótar en í peningalegu samhengi, þótt þetta séu stórar upphæðir, erum við ekki að sýta það.

Við erum auðvitað öll miður okkar yfir stöðunni fyrir botni Miðjarðarhafs og sjáum ekki fyrir endann á henni. En þó að þessi mál taki mikinn tíma og orku og peninga þá er yfir mörgu öðru að gleðjast á móti, t.d. sirka 74 fríverslunarsamningum við þjóðir sem spegla um tvo þriðju mannkyns. Það eru 46 tvísköttunarsamningar fyrirliggjandi í dag og spurning hvort hleypa þyrfti meiri krafti í þá lúkningu, fleiri samninga.

Hér var vikið að EES-málum og bókun 35 og svo má nefna þessa yfirvofandi grænu skatta sem munu auðvitað bitna á heimilum landsins. Skipaflutningar verða skattlagðir og það þýðir dýrari fæðu og dýrari vöru á Íslandi, og það verður auðvitað dýrara að fljúga á milli landa frá og með 2026 að óbreyttu. Þess vegna finnst mér, eins og ég hef stundum nefnt í þessum stóli, að það hafi verið dálítið einhliða stafað ofan í okkur af hálfu Evrópusambandsins hvernig við skulum sitja og standa ef við ætlum að fá að vera „memm“. Það kemur fram í þessari skýrslu hversu óþolandi það er að geta ekki klárað mál eins og tollamál á sjávarafurðir í viðskiptum. Niðurfellingar á tollum voru grunnur og forsenda inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma. Þetta gengur því miður ekki eins og við hefðum óskað en við kyngjum meira og minna hikstalaust öllu sem kemur frá því með vaxandi þunga, 650 tilskipunum á ári hverju í smáu og stóru.

Varðandi varnarmálin þá þarf ekki að fjölyrða um það að við erum og verðum í NATO að óbreyttu eins og hin Norðurlöndin hafa nú ákveðið að gera, Finnland og Svíþjóð, til viðbótar við Danmörku og Noreg. Í skýrslunni kemur skýrlega fram að við Íslendingar þurfum að fjárfesta í eigin getu og viðbúnaði til að tryggja eigin þjóðaröryggishagsmuni, sem jafnframt eykur öryggi annarra bandalagsríkja. Í þeim efnum eru mörg tækifæri til að gera betur. Við þetta staldra ég og óska eftir nánari skýringum hæstv. ráðherra á því hvað menn eru að hugsa í þeim efnum og hverjir munu halda utan um þau mál í ráðuneytinu. Eins og ég hef vitnað í hér áður frá reynslu minni í Ráðhúsi Reykjavíkur hér handan götunnar þá voru svo fjölmargir embættismenn sem sögðu við mann heiðarlega í einrúmi: Eftir átta eða tíu klukkustunda stífa daga kemur maður heim til sín eftir alla fundina, dæsir og segir: Hver er að fara að framkvæma allt þetta sem var talað um í dag? Það óneitanlega kemur aðeins upp í hugann við lestur þessarar 158 blaðsíðna skýrslu. Með fullri virðingu fyrir hinu öfluga starfsliði utanríkisþjónustunnar: Er virkilega allur þessi málafjöldi raunverulega á borðum „aksjón“-manna og -kvenna sem ætla að taka að sér að framkvæma og fylgja eftir? Ég vona það.

Ég fagnaði kaflanum um Bláfæðubandalagið, sem inniber náttúrlega þörunga sem eru að verða heilmikið ævintýri á Íslandi. Þörungavinnsla er á Reykjanesi og víðar; stóriðnaður, hollmeti, sennilega fyrsta lífefnið á jörðinni sem verður til við samspil sólar og sjávar, þetta græna slím sem verður að einfrumungi og síðan að fæðu. Blágrænir þörungar eru taldir ein hollasta og öflugasta fæða sem til er. Við erum að verða mjög öflug í þessu og ánægjulegt að við Íslendingar skulum hafa verið frumkvöðlar að því að koma Bláfæðubandalaginu á kopp, Aquatic Blue Food Coalition, með leyfi forseta. Að við skulum hafa gegnt formennsku í því frá árinu 2021 vissi ég ekki fyrr en við lestur skýrslu hæstv. utanríkisráðherra.

Ég velti fyrir mér tvennu eða þrennu til viðbótar sem ég vildi biðja hæstv. ráðherra að veita mér svör við. Vinaþjóð okkar, Japan, er búin að vera mikilvægur útflutningsmarkaður. Við höfum um langt skeið leitast við að fá japönsk stjórnvöld til viðræðna um fríverslunarsamning en við litlar undirtektir, eins og segir í skýrslunni. Það vekur athygli manns að vinaþjóð sem er jú tilbúin í menningarsamstarf og alls kyns samstarf við okkur sýnir ekki fríverslunarsamningi mikinn áhuga. Þarf ekki bara lempni og lagni og að hnykkja frekar á því með viðvarandi hætti að við ætlumst til slíkra samninga við vinaþjóðir?

Við erum búin að tala um fríverslunarsamning við Bandaríkin árum og áratugum saman. Við erum búin að gera slíkan samning við Kína. Það vekur furðu að við skulum ekki vera með slíkan samning við Bandaríkin. Þarf ekki að setja aukið púður í það, hæstv. ráðherra, og bara einbeita sér að því að klára það sem klára þarf í þeim efnum? Þeir eru eflaust uppteknir af því að við værum ekki að fara að flytja inn nautakjöt frá Bandaríkjunum eða eitthvað slíkt, en allt snýst um lipurð og lagni í samningaviðræðum.

Það er annað sem ég vil nefna varðandi Bandaríkin og það er sá hluti Bandaríkjanna sem mér er best kunnugur, Kalifornía. Stundum er talað um Kaliforníu sem fjórða eða fimmta stærsta hagkerfi heimsins. Það er gríðarlegur auður sem þar verður til, bæði í, skulum við segja, vitundariðnaði en ekki síst í Kísildalnum og þeim tæknibyltingum sem þaðan eru sprottnar. Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki væri tilefni til þess — í fyrsta lagi er mikill fjöldi Íslendinga sem býr í Kaliforníu, Suður-Kaliforníu — að vera með alvöruskrifstofu, alvöruútgerð í Los Angeles. Suður-Kalifornía telur um 25 milljónir manna og hagkerfið þar er alveg ótrúlega öflugt. Við getum sagt að þetta sé í rauninni höfuðstöð samfélagsmiðlanna í heiminum, fjölmiðlanna í heiminum, útgáfunnar í heiminum, vitundariðnaðarins í heiminum. Með fullri virðingu fyrir öllum hinum kontórunum okkar tel ég tímabært að við förum að tala alvarlega um skrifstofu Íslands á þessum góða stað.

Ég vil líka segja að ég hef hreyft því við hæstv. ráðherra og forvera hennar, a.m.k. tvo, hversu undarlegt það er að hafa verið gistivinaþjóð Bandaríkjanna síðan eftir seinni heimsstyrjöld og alveg fram á þennan dag, með stuttu hléi frá 2006–2018, en vera ekki enn komin í náðina með hinum vinaþjóðunum sem fá þennan fína grænahliðsaðgang eftir langt flug á milli heimsálfa. Ég er búinn að lenda í því mjög oft sjálfur með ung börn í fanginu, örþreytt, að þurfa að bíða í tvo til þrjá klukkutíma þegar maður er svo óheppinn að lenda t.d. með Hong Kong-flugi eða Kínaflugi á bandarískum velli. Ég hef talað um Global Entry-löndin áður. Þau eru ansi mörg og ekki endilega allt lönd sem maður hefði talið að ættu að vera komin á undan okkur þarna inn. Borgarar Argentínu, Brasilíu, Barein, Indlands, Kólumbíu, Bretlands, Þýskalands, Hollands, Panama, Singapúr, Suður-Kóreu, Sviss, Taívan, Mexíkó; allt er þetta fólk skilgreint sem vinir Bandaríkjanna en Íslendingar mega húka í biðröðum og bíða.

Sérstaklega í ljósi þess hve Bandaríkin kunna nú afskaplega vel að meta lipurð okkar og samstarfsvilja í yfirstandandi óhugnanlegu ástandi stríðsátaka og eru með vaxandi umsvif, mætti ég biðja hæstv. ráðherra enn einu sinni að hnykkja á þessu máli og koma okkur inn á þennan lista og auðvelda íslenskum borgurum að heimsækja þetta stórveldi sem er nánasti bandamaður okkar í svo mörgum efnum, klára viðskiptasamninginn við Bandaríkin og klára grænahliðssamninginn, Global Entry-samninginn? Þá held ég að við mættum bara nokkuð vel við una í stóra samhenginu. Við skulum vona að við höldum áfram að halda fullri reisn í samkvæmi meðal þjóða í samstarfi okkar við þær. Við þurfum ekki að bera kinnroða fyrir það sem við erum að gera í dag varðandi þá sem sækja hér um hæli eða leita skjóls á Íslandi. Það er málaflokkur sem er mikið umræddur en við höfum sýnt, og þá sérstaklega gagnvart Úkraínu, okkar hugarþel gagnvart fólki sem verður fyrir hörmulegum áföllum á borð við þau sem þar eru í gangi og hafa verið allt of lengi.

Að svo mæltu ætla ég ekki að hafa mín orð mikið lengri. Ég treysti því að fá svör við þessum álitaefnum og að þessi umræða hér í dag um þessa mögnuðu, stóru og umfangsmiklu skýrslu verði innihaldsrík og fróðleg fyrir bæði þing og þjóð.