154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[18:00]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra greinargóða skýrslu og góða framsögu og yfirferð hennar. Eins og vanalega hefur starfsfólk utanríkisþjónustunnar skilaði af sér góðu verki, bæði í efni og framsetningu. Á árinu sem er liðið frá síðustu skýrslu hæstv. ráðherra um utanríkismál hafa horfur og ástand í heiminum því miður ekki orðið betri nema síður sé. Hæstv. ráðherra lýsir því vel hvernig alþjóðakerfinu sem við eigum allt okkar undir er nú ógnað. Ófriðarbál loga víða og athygli okkar nemur ekki nema brotabrot af þeim hörmungum. Flestallar hörmungar fara undir radar, halda ekki fyrir okkur vöku. Mér varð svo oft hugsað til þessa á nýlegu ferðalagi mínu í Síerra Leóne, einu fátækasta ríki heims og nýju tvíhliða samstarfsríki Íslands í þróunarsamvinnu. Þar sá ég margt sem situr í mér og heldur fyrir mér vöku, m.a. hitti ég fórnarlömb og baráttukonur gegn kynfæralimlestingum á konum en Síerra Leóne hefur eitt hæsta hlutfall heims þessa hryllilega ofbeldis, hlutfall sem hefur þó á nokkrum árum farið úr yfir 90% í um 83% kvenna sem verða fyrir þessu mannréttindabroti. Limlestingin er flokkuð í þrjú stig eftir alvarleika, eftir því hversu mikið er fjarlægt af kynfærunum en öll þrjú stigin tíðkast í Síerra Leóne. Staðan er þannig að nánast allar konur sem við hittum, allar litlar stelpur, höfðu orðið fyrir þessum hryllingi, verið skornar með misgóðum verkfærum eins og rakvélarblöðum og skærum og gróið misvel saman. En þær sem við hittum höfðu þá a.m.k. lifað af. Fjölmargar deyja við þessar aðfarir.

Við funduðum líka með stjórnvöldum í Síerra Leóne, stjórnvöldum sem hafa verið treg að berjast gegn þessum óskapnaði. Við tókum málið að sjálfsögðu uppi alla sem við hittum en það er ekki sport fyrir alla að hafa stjórn á framsetningunni um slík mál. Íslenskir skaphundurinn sem ég er þurfti a.m.k. að taka á öllu sínu og rifja upp allt sem hún lærði í diplómataþjálfun utanríkisráðuneytisins. En svona ferðir, svona fundir, minna mann líka á það að framlag Íslands skiptir máli og rödd Íslands skiptir máli. Auðvitað þyrmir yfir okkur þegar við sjáum hörmungar, hungur og ofbeldi hvert sem við lítum. En það þýðir ekki að skríða bara undir sængina og slökkva ljósin. Við getum sannarlega látið til okkar taka. Ég verð þó sífellt sannfærðari um það að við þurfum að tryggja það að framlög okkar nýtist vel, að við hámörkum virði fjárframlaga, vinnuframlags, tíma og orku sem við eyðum, m.a. í þróunarsamvinnu.

Virðulegi forseti. Ísland hefur, eins og okkar helstu samstarfsríki, þurft að laga sig að aðstæðum og breyttum veruleika í kjölfar allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu. Því miður sér ekki fyrir endann á þessari ólöglegu innrás. Þessa dagana berast okkur því miður jákvæðar fréttir af framlínunni. Það verður ekki sagt nógu oft hversu aðdáunarverð frammistaða Úkraínumanna hefur verið í þessu erfiða stríði. Ég fagna því auknum stuðningi Íslands við Úkraínu. Ég hef sagt frá heimsókn minni hér áður til Bandaríkjanna með kollegum mínum og formönnum utanríkismálanefnda á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum og viðtökunum sem við fengum þar og ég segi aftur frá þessu til að ná betur til þessa minni hluta sem þykist ekki skilja það af hverju við leggjum þessa höfuðáherslu á stuðning við Úkraínu. Þegar við fórum á fundi með bandarískum stjórnmálamönnum sem höfðu auðvitað vissan skilning og miklar áhyggjur af ástandinu í Úkraínu, þá var samt viðkvæðið alltaf það sama alls staðar: Þetta er að gerast í ykkar heimshluta, í ykkar bakgarði. Eruð þið ekki örugglega með allt uppi á tíu hjá ykkur? Eins og hæstv. ráðherra fór hér yfir í framsögu sinni er fjárfesting í vörnum Úkraínu fjárfesting í eigin vörnum. Það er ekki bara okkar mat heldur allra okkar nágranna- og vinaþjóða.

Og talandi um okkar eigin varnir, virðulegi forseti. Mér heyrist við flest sammála um mikilvægi aðildar að NATO og varnarsamningsins við Bandaríkin og sömuleiðis um mikilvægi þess að Ísland tryggi viðbúnaðargetu í samræmi við skuldbindingar sínar í öryggis- og varnarmálum. Nágranna- og samstarfsríki okkar hafa stóraukið útgjöld til öryggis- og varnarmála í takt við aukna spennu og óstöðugleika í umhverfi okkar. Undanfarin ár hafa þessi mál verið tekin alvarlega af utanríkisráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins hefur verið endurvakin, sérstök deild fjölþáttaógna stofnsett og ráðist hefur verið í umtalsverð viðhalds- og endurbótaverkefni vegna varnarmannvirkja á öryggissvæðum. Við höfum aukið fjárútlát til málaflokksins umtalsvert og styrkt samstarf okkar á mörgum sviðum, m.a. norrænt varnarsamstarf og innan sameiginlegu viðbragðssveitarinnar. Við eigum að taka áfram virkan þátt í varnartengdum verkefnum og viðhalda varnarinnviðum okkar í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands. Þannig tryggjum við áframhaldandi frið á okkar friðsælu eyju.

Virðulegi forseti. Í öllu því umróti sem við höfum orðið vitni að undanfarna mánuði og ár, hvort sem er varðandi heimsfaraldur eða styrjaldir, hefur styrking á samstarfi Íslands við nágranna- og vinaþjóðir verið ljós í myrkrinu. Hæstv. utanríkisráðherra á hrós skilið fyrir þá áherslu sem hún hefur lagt á að rækta ýmiss konar samstarf, bæði á sviði utanríkismála en ekki síst á sviði varnarmála. Þar stendur samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin auðvitað upp úr enda nánustu samstarfsríki Íslands. Þessari samvinnu er lýst vel í framlagðri skýrslu hæstv. ráðherra og ég hvet hana til að halda áfram á sömu braut. Við þingmenn þekkjum það vel að eiga vini og bandamenn í þessum þjóðum í okkar störfum.

Virðulegi forseti. Átök víðs vegar um heiminn hafa auðvitað sett mjög mark sitt á alþjóðleg samskipti undanfarna mánuði og ár. Við fylgjumst flestöll með hryllingnum sem tekur engan endi í Úkraínu og hörmungum fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem saklausir borgarar eru, eins og svo oft, meginfórnarlömb átaka. Þessi átök og vaxandi átök víðar í heiminum hafa mikil áhrif, m.a. á norðurslóðasamstarf og á þróunarsamvinnu, svo dæmi séu tekin. Það hefur verið vont að verða vitni að vaxandi spennu á norðurslóðum en eins og við vitum er öryggi á svæðinu, sjálfbærni, samfélagsleg og efnahagsleg þróun stór hagsmunamál fyrir Ísland. Þetta er undirstrikað í skýrslu hæstv. ráðherra.

Og af því ég nefni þróunarsamvinnu, virðulegi forseti, langar mig að enda mína yfirferð á smáumfjöllun um hana. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um mikilvægi þróunarsamvinnu sem hún sýnir ekki bara í ræðu og riti heldur líka í verki. Þróunarsamvinna er mikilvæg og það hefur verið átakanlegt að taka á móti áköllum frá fólki í samstarfsríkjum okkar í þróunarsamvinnu sem kalla eftir meiri aðstoð eftir því sem neyðin vex samhliða vaxandi átökum víðs vegar um heiminn og samhliða því að athygli okkar hefur verið að dreifast víðs vegar um heim. Það er ótrúlega þungbært að hlusta á hróp þessa fólks sem virðast ekki vekja neina gríðarlega mikla athygli eða mikla tilfinningasemi hjá viðtakendum. Þar sem ég er nýkomin úr vinnuferlið til Síerra Leóne eins og ég hef þegar nefnt þá langar mig til að hvetja hæstv. ráðherra til að vinna að framgangi málefna þar sem við höfum sérþekkingu á. Maður sér það þegar komið er til Síerra Leóne hversu vel áherslur okkar og sérþekking Íslands geta nýst í þróunarsamvinnu Íslands.

Ég gæti staðið hér í allan dag og rætt utanríkismál. Þau eru mér svo mikið hjartans mál. Mér finnst hæstv. ráðherra hafa gert vel með sinni framsögu og svörum hér í dag og sömuleiðis fjölmargir hv. þingmenn úr mörgum flokkum sem hafa lagt margt gagnlegt til málanna. Það er ótrúlega jákvætt hversu samstiga við þingmenn erum í mörgum utanríkismálum, enda er samstarf okkar í hv. utanríkismálanefnd sérstaklega ánægjulegt og til mikillar fyrirmyndar.