154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mikilvægar og góðar breytingar, segir hv. þingmaður, breytingar sem lúta m.a. að því að skerða möguleika fólks til þess að vera með ástvinum sínum í kjölfar erfiðs ástands, mikilvægar og góðar breytingar. Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að ég átta mig ekki alveg á því í huga hv. þingmanns, hvers vegna hv. þingmaður telur rétt að gera þessar kröfur. Mig langar að taka það frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Í fyrsta lagi: Hvers vegna er þessi krafa bara fyrir fólk á flótta? Hvers vegna er ekki gerð krafa um biðtíma fyrir einstaklinga sem fá dvalarleyfi af öðrum ástæðum? Þau eru líka tímabundin. Fjölskyldusameiningar flóttafólks eru brotabrot af fjölskyldusameiningum almennt. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvers vegna hún telur rétt að samræma löggjöf okkar við löggjöf sem hefur reynst mjög illa. Við þurfum ekkert að hafa einhverja könnun á því hvernig þetta mun reynast. Ákveðin nágrannaríki okkar, alls ekki öll, hafa reynt þetta og það hefur gefist mjög illa. (Forseti hringir.) Það hefur aukið á streitu og kvíða hjá þessum einstaklingum. Það kemur í veg fyrir inngildingu, torveldar möguleika þeirra til að læra tungumálið og komast í virkni. (Forseti hringir.) Hvers vegna erum við apa upp eftir öðrum ríkjum eitthvað sem hefur reynst illa?