154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir þau ótal mörgu samtöl sem við höfum átt um þessi mál og önnur, alltaf gaman að spjalla við hv. þingmann. Mig langar til þess að spyrja hann aðeins út í breytingartillögurnar sem hann gerir í sínu nefndaráliti, fyrst og fremst tillögu sem varðar skipan talsmanns. Í breytingartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Útlendingastofnun skipar umsækjanda um alþjóðlega vernd talsmann við meðferð máls hans hjá stjórnvöldum. Þó skal Útlendingastofnun, þegar mál sætir málsmeðferð skv. 29. gr., 1. mgr. 36. gr. eða 44. gr., eða þegar fyrirsjáanlegt er að umsækjandi fái veitta alþjóðlega vernd eða synjun á umsókn sinni, að jafnaði afgreiða mál án þess að talsmaður sé skipaður. …“

Ég skil þetta ákvæði ekki öðruvísi en svo að hv. þingmaður sé á því að fólk eigi að fá skipaðan talsmann nema ef fyrirséð er að það fái synjun eða veitingu. En nú held ég að það eigi við um alla þá sem sækja um að það er fyrirséð að þeir fái annaðhvort veitingu eða synjun þannig að ég velti fyrir mér hvernig þetta sé hugsað hjá hv. þingmanni. Loks langar mig að spyrja hv. þingmann út í það að hann er, ef ég skil hann rétt, að leggja til að fólk fái ekki talsmannaþjónustu á fyrsta stjórnsýslustigi sem er, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, fyrirkomulagið í nokkrum nágrannaríkjum okkar. Hins vegar er í þeim nágrannaríkjum annars konar lögfræðilegu stuðningur í boði fyrir fólk. Það eru frjáls félagasamtök með stuðningi stjórnvalda, opinberum stuðningi, sem veita einstaklingum lögfræðilega ráðgjöf þó að þeir fái ekki persónulegan talsmann. Er hv. þingmaður þá einnig hlynntur því að það verði tekið upp ef talsmannaþjónustan á fyrsta þjónustustigi verður afnumin?