154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:02]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að segja að mér þykir leitt að heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar lepja upp óstaðfesta vitleysuna eftir Sjálfstæðisflokknum. Þar ber kannski helst að nefna það að í 2. mgr. 36. gr. sé að finna séríslenskar reglur sem séu einhvers konar segull. Það er ekkert sem bendir til þess og hefur hvergi verið sannað. Því hefur svo sem verið svarað, en það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í, þar sem hv. þingmaður er löglærð líkt og sú er hér stendur, er að öll ríki Evrópu, nema mögulega eitt eða tvö eiga það til að taka til efnismeðferðar umsóknir fólks sem hefur t.d. fengið vernd í öðru ríki, oftast Grikklandi en einnig Ungverjalandi og víðar. Þrátt fyrir að það sé ekki 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 hjá þeim sem er forsendan, þá gera ríkin þetta gjarnan með vísan til reglna um að ekki megi senda fólk þangað sem líf þeirra og frelsi er í hættu, sem er í dag t.d. í 3. mgr. 36. gr. En 2. mgr. 36. gr. var m.a. sett á sínum tíma, árið 2016, vegna þess að reglu um bann við endursendingum þangað sem líf fólks og frelsi er í hættu var aldrei beitt gagnvart fólki sem hafði fengið vernd í öðru ríki. Þess vegna var 2. mgr. sett. 3. mgr. hefur aldrei verið beitt og það er ekki vegna þess að 2. mgr. er þarna vegna þess að forvera hennar, 1. mgr. 46. gr. a laga nr. 96/2002, var heldur aldrei beitt. Þá var engin sambærileg grein og 2. mgr. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann er: Hvers vegna telur hún að þessum ákvæðum verði beitt héðan af þar sem þeim hefur aldrei verið beitt áður?