154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Bara til að ítreka mál mitt þá held ég að við sem erum ekki sérfræðingar í útlendingalögum til fjölda ára séum jafn hæf til að leggja sjálfstætt mat á það hvort breytingar séu forsvaranlegar á þessum tilteknu lögum og þeir sem eru búnir að stúdera þessi fræði. Þetta mál er þannig vaxið að við höfum ekki forsendur til að vefengja það að erlend framkvæmd, sem vissulega hefur sínar leiðir til þess að taka á aðstæðum barna í skelfilegum aðstæðum, muni ekki gilda hér á landi áfram. Við erum aðilar að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, höfum fullgilt hann og lögfest, rétt eins og Svíþjóð. Það gilda hér barnaverndarlög. Ég er bara sannfærð um það eftir hafa haft samráð við fjölda manns að 2. mgr. 36. gr., (Forseti hringir.) eins og hún er núna, sé ekki skilyrði fyrir því að staðinn verði áfram vörður um réttindi barna á flótta, sérstaklega fylgdarlausra barna.