154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[18:52]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gagnlegt að sitja hér í dag og hlusta á umræðu um þetta mál sem við fjöllum hér um. Mig langar að byrja á því að fara aðeins yfir það að vinna okkar í allsherjar- og menntamálanefnd var mjög gagnleg. Ég held að við höfum gert okkar allra besta í þeirri vinnu við að fá inn ótal sérfræðinga, jafnvel taka lengri tíma til meðferðar málsins þegar gögn bárust svona undir það síðasta til þess að ná sem flestum sjónarmiðum fram, taka tillit til sem flestra sjónarmiða og ná einhvern veginn dýpt í umræðunni innan nefndarinnar, sem ég tel ákaflega mikilvægt þegar við erum að fjalla um málaflokk sem er svo ótrúlega viðkvæmur.

Í fyrsta lagi erum við að horfa upp á stöðu sem við höfum aldrei áður séð. Það hefur aldrei verið eins margt fólk á flótta í heiminum og er í dag og það eru engar líkur á því að það sé að fara að breytast neitt. Það er margt sem veldur. Það eru náttúruhamfarir, það er hlýnun jarðar, það er stríðsrekstur víða um heim og því miður sjáum við ekkert af þessum forsendum vera að breytast til batnaðar á næstu misserum. Við verðum því að horfast í augu við þá skelfilegu stöðu að þessi gríðarlegi fjöldi fólks sem lifir við óbærilegar þjáningar og ótta og neyðist til að yfirgefa heimili sín og leita ásjár annars staðar, leita betra lífs, er ekki að fara að minnka eða breytast.

Málaflokkurinn stendur mér nærri. Ég hef lengi talað fyrir því að Ísland geri vel í móttöku flóttafólks og ég barðist mikið fyrir því meðan ég sat í sveitarstjórn að við tækjum hér inn kvótaflóttafólk. Ég hef lagt mig fram um að styðja við málstað flóttafólks og gert mitt allra besta í þeim málum sem hafa komið hér fyrir þingið, sem hafa verið stór og hafa verið flókin. Þar hef ég lagt mitt á vogarskálarnar í því að halda á lofti sjónarmiðum kvenna, barna, fólks með fatlanir, fórnarlamba mansals, fylgdarlausra barna og bara þeirra hópa sem ég tel vera í algerlega veikustu stöðunni.

Margt hefur komið hér fram í dag og borið á góma og það hefur verið sérstaklega áhugavert að heyra að umræðan hefur breyst gríðarlega frá því við síðast fjölluðum um útlendingamál. Mér finnst umræðan vera mildari. Ég skil það að þetta frumvarp er auðvitað allt annars eðlis heldur en þau lög sem voru samþykkt í fyrra en mér finnst harkan á báða bóga vera talsvert minni og stóru orðin eru spöruð. Það held ég að sé gagnlegt af því að þegar við erum í orðræðu um gríðarlega viðkvæm mál og við notum ofboðslega stór orð; allir og alltaf og enginn og aldrei, þá er það ekki gagnlegt, ekki í málefnalegri umræðu um það að við sem samfélag viljum taka höndum saman um að móta hér kerfi sem hefur mannúð að leiðarljósi.

Það sem mér finnst mikilvægt í þessu frumvarpi og mikilvæg breyting á frumvarpinu frá því að það kom inn til allsherjar- og menntamálanefndar eru þær undanþágur sem verið er að gera hvað varðar fjölskyldusameiningar. Það er flókið að búa til einhverja eina réttarreglu. Mér þætti mjög gott að fjölskyldur þyrftu aldrei að splundrast. Mér þætti mjög gott ef fólk þyrfti aldrei að flýja að heiman. Mér þætti mjög gott ef enginn væri nokkurn tímann seldur mansali. En staðan er þessi og í gölnum heimi við óbærilegar aðstæður verðum við bara að gera okkar besta til þess að þau sem hingað koma fái þjónustu, fái raunverulega vernd.

Þessar breytingar sem varða inngildingarsjónarmið þykja mér góðar. Mér þykja þær mannúðlegri heldur en t.d. í Danmörku hvar við horfum upp á tímamark og líka ákveðnar kröfur um tungumálakunnáttu, atvinnuþátttöku, húsnæði o.fl. Það sem við erum að gera hér er að með þessum tímamörkum, tveimur árum, er gerð undanþága. Annars vegar það að ef um ríka umönnunarþörf er að ræða þar sem aðstandandi þinn erlendis þarfnast umönnunar þinnar, þá geturðu fengið undanþágu og sótt um fjölskyldusameiningu fyrr. Hin undanþágan er sú að þú getur stytt þennan biðtíma. Mér finnst biðtíminn ekki góður. Ég ræddi það mjög við þá gesti sem til okkar komu, af hverju ekki að hafa bara engan biðtíma? Af hverju höfum við ekki bara engan biðtíma þannig að fólk geti byrjað strax? Þá komu upp þessar raddir; Norðurlöndin eru að horfa á þessar leiðir, annaðhvort að hafa biðtíma eða hafa ríkari kröfur um inngildingu, og niðurstaðan varð að fara þessa leið.

Hér hefur mikið verið í umræðunni í dag að það sé ekki samræmt kerfi á Norðurlöndunum. Hvað erum við að elta? Þá finnst mér mikilvægt að taka fram að þegar við tölum um að samræma okkur við hin Norðurlöndin þá erum við ekki bara að lesa ákveðna lagagrein í ákveðnu Norðurlandi. Við erum að horfa heildstætt á löggjöf Norðurlandanna og frumvörp sem liggja fyrir, t.d. í Finnlandi þar sem er verið að breyta í átt að því sem er til að mynda í Danmörku. Það er verið að stytta dvalarleyfistímann úr fjórum árum. En svona tekur tíma. Það er ekki bara þannig að eitthvert eitt land setji línu og öll hin samræmi sig því svo, heldur eru löndin að finna hvert á sinn hátt þær leiðir sem eru ákjósanlegastar. Ég hef haldið því til haga að þar eigi mannúðin að vera leiðarljós okkar og því hef ég fylgt eftir og ég er ánægð með þessar breytingar.

Ég hef heyrt hér gagnrýni varðandi þessa hluti og ýjað að því að hvað varðar íslenskukennslu og þessi atriði sem þarna falla undir undanþáguna um fjölskyldusameiningu þá séu þau óraunhæf og ógerleg jafnvel. Það sem mig langar að segja hér er að í þetta lögðum við mikla vinnu. Við ræddum við sérfræðinga. Við horfðum til þess hver staðan er í samhengi við annað sem við erum að gera á þinginu, fjármagn sem verið er að setja í kennslu fyrir útlendinga, sérstaka stefnu um íslenska tungu. Við gripum ekki bara eitthvað og settum það inn heldur skoðuðum við hvern þátt mjög gaumgæfilega, t.d. það sem varðar húsnæði. Við ræddum okkur mjög vel í gegnum það; viðeigandi húsnæði, hvað þýðir það fyrir flóttamanneskju frá Sýrlandi sem á börn og maka erlendis og vill fjölskyldusameiningu? Hvað er ásættanlegt húsnæði fyrir þá manneskju? Er það sama mat og við Íslendingar sem búum hér í vellystingum höfum? Erum við að setja sama kvarða? Nei, það erum við ekki að gera. Þess vegna getum við ekki gert kröfu um að manneskja sem er í þessari viðkvæmu stöðu útvegi sér íbúð með sérherbergi fyrir alla á gölnum fasteignamarkaði heldur horfum við til þess hvaða kröfur eru gerðar t.d. um húsnæðisbætur, það er ákveðin hreinlætisaðstaða, eldunaraðstaða, brunavarnir. Þannig að ég hafna því að þær tillögur sem gerðar eru í þessari undanþágu séu óraunhæfar eða slæmar. Að mínu mati hefur frumvarpið tekið mjög góðum breytingum í meðförum nefndarinnar og því fagna ég.

Hér er mikið vísað í inngildingu. Það hefur rosalega mikið verið talað um inngildingu hér í dag og ég verð að segja að það er það sem við eigum að vera að horfa á. Þegar ég horfi til Norðurlandanna, og allsherjar- og menntamálanefnd fór nú hér á kjörtímabilinu og heimsótti Danmörku og Noreg og kynnti sér mál flóttafólks, þá hefur mér litist best á stefnuna og stöðuna í Noregi. Þar er inngildingin gríðarlega mikilvæg. Það er miklu meira horft til hennar í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þar er miklu meiri dreifing fólks um sveitarfélögin. Það verða ekki endilega svona miklir þungapunktar á ákveðnum stöðum. Ég tel líka ótrúlega mikilvægt að við styðjum það fólk sem hingað kemur til þess að vera þátttakendur í okkar samfélagi og við gerum það best með því að styðja það til náms í tungumálinu, með því að hjálpa því að komast út á vinnumarkað. Í því felst mannleg reisn og það er það sem við öll þráum, hvaðan sem við komum og hvað sem við erum að gera, að fá að standa á eigin fótum, vera einhvers virði og geta séð fyrir okkur og okkar nánustu. Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram að horfa til inngildingar og leggjum meiri áherslu á hana.

Sjálf hef ég talað fyrir því og fagna því þegar ég horfi á heildarsýn ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga að gefinn er mikill gaumur að kvótaflóttafólki. Þar held ég að séu mikilvægt tækifæri til þess að hjálpa sem mest, að við getum boðið hingað fólki sem við vitum fyrir fram nákvæmlega í hvaða stöðu er, sem koma í boði stjórnvalda og fara inn í ákveðið prógramm. Það er leið sem mér finnst góð og hún hefur gengið vel og þess vegna hef ég lagt áherslu á það að mér finnst ekki góður bragur á því að flóttafólk, kvótaflóttafólk hafi verið að koma til landsins alveg fram á þennan dag en slík framkvæmd taki samt gríðarlega langan tíma og jafnvel einhver ár. Það er mikilvægt að við séum alltaf að skoða næsta skref og hvaða hóp við ætlum að fá næst þannig að það verði aldrei rof í þessari vinnu, sem ég held því miður að sé staðan núna.

Það er alveg ljóst að í þessari vinnu allsherjar- og menntamálanefndar sitja fulltrúar ólíkra flokka, ólíkra sjónarmiða sem spanna litróf pólitíkurinnar frá einum stað og alveg yfir á hinn endann. Það er því flókið að komast að einhverri niðurstöðu. Það verður aldrei svo að einhver einn fulltrúi í slíkri nefnd fái allt sitt fram og það er líka mjög ólíklegt að allir fulltrúar í nefndinni verði 100% sammála um niðurstöðuna. Ég hef þó trú á því að við getum komist þokkalega sátt frá þessari vinnu og ég heyri það á umræðunni. Þó að hér séu boðuð mörg sérálit og einhverjar breytingartillögur þá held ég miðað við umræðuna í dag og miðað við vinnuna í nefndinni að við séum í þokkalegri sátt að afgreiða þetta mál og það verði á endanum til góðs.

Ég trúi því að við eigum að taka á móti fólki á flótta og það erum við að gera og það höfum við verið að gera. Við höfum aldrei tekið á móti eins mörgum. Ég ætla ekki að fara niður í þá gröf að segja: Já, en þessir eru frá þessu landi og þetta er bara út af stríðinu þarna. Þetta fólk sem er að koma, hvaðan sem það er, er fólk sem er að flýja aðstæður og leitar hingað. Við höfum tekið ákvarðanir um ákveðna hópa, önnur koma hér bara inn í kerfið eitt og eitt frá ýmsum löndum. Ég tel mikilvægt að við séum með skýrar og góðar reglur sem byggja á mannúð, sem eru fyrir kerfi sem er skilvirkt. Það er óboðlegt að fólk bíði árum saman eftir niðurstöðu í sínum málum, sé jafnvel komið hér vel inn í bæði tungumál og samfélag og sé svo vísað úr landi. Ég held við séum að fara í rétta átt. Við þurfum að hafa hér ákveðnar reglur. Ég geri ekki lítið úr því að hvert einasta mál er flókið, sárt og erfitt og það væri gott ef við gætum tekið hvert einasta mál og leyst úr því á hátt sem öll væru sátt með. En það er ekki raunveruleikinn, alveg sama hvað okkur langar mikið til þess þá er það ekki raunveruleikinn. Og meðan staðan er sú þá verðum við að vinna saman að því að gera hér kerfi sem við getum verið sátt við, sem byggir á mannúð og sem hjálpar okkur til þess að taka á móti fólki en ekki bara til þess að það fái stimpil; já, þú ert kominn hér með eitthvert dvalarleyfi, þú mátt vera. Það er ekki nóg. Fókusinn okkar þarf að fara meira á innviðina. Við þurfum að styðja kennara, við þurfum að styðja húsnæðismarkað. Við þurfum að gera svo miklu betur hvað varðar inngildinguna og þannig náum við meiri farsæld í þennan viðkvæma málaflokk.

Ég er ekki sammála því endilega að það sé einhver ákveðin tala, að við getum bara tekið á móti X mörgum, svo er bara komið eitthvert þak og þá bara verðum við að stoppa. Þannig virkar það ekki. Við höfum alltaf, áratugum saman, tekið á móti fólki og því munum við halda áfram. Stóra málið í þessu er að við þurfum á fólki að halda. Við getum ekki sem Íslendingar mannað okkar vinnumarkað. Við getum ekki mannað mörg mismunandi störf í samfélaginu án fólks sem er tilbúið til að koma til okkar og starfa. Það er ekkert öðruvísi með manneskju sem er að koma einhvers staðar utan úr Evrópu í gegnum EES og vill sækja sér hér vinnu og betra líf og mætir á fiskeldisstöðina eða hótelvaktina eða hvar sem það nú er sem viðkomandi fær vinnu af því að það sárvantar fólk, viðkomandi sinnir sinni vinnu, uppfyllir sínar skyldur og öðlast hér samfélagslegan rétt og virðingu. Af hverju á það að vera eitthvað öðruvísi með fólk sem er að flýja hörmungar? Það er nákvæmlega það sama sem þau vilja og það er að verða partur af þessu samfélagi, fá að lifa með reisn með sínu fólki og skapa sér líf. Það er stóra markmiðið og til þess erum við auðvitað að vinna í samstarfi, til þess að komast á þann stað að sem best utanumhald sé um þetta viðkvæma og flókna kerfi.