154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að því sem hv. þingmaður talaði um Reykjanesbæ, að álagið þar á innviði væri að stórum hluta bara vegna EES-samningsins. Ég hef rætt við bæjarstjórann í Reykjanesbæ, ég hef átt fund með honum, hv. þingmaður, og hann sagði að þetta álag kæmi til vegna hælisleitenda. Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður getur haft betri og meiri vitneskju um þetta heldur en bæjarstjórinn í Reykjanesbæ. Það er bara þannig og hann hefur sagt það opinberlega að þetta sé vegna álags vegna hælisleitenda og þeir ráða ekki lengur við þann fjölda sem þangað kemur, bara svo það sé skýrt.

Síðan vil ég aðeins koma að því hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar að hælisleitandi í hjólastól í Grikklandi sé á götunni. Ég hef farið til Grikklands. Ég hef farið í heimsókn í flóttamannabúðir þar. Ég hef átt fund með ráðamönnum þar í gegnum flóttamannanefnd Evrópuráðsins og það kannast enginn við það að flóttamaður í hjólastól sé á götunni í Grikklandi, enginn.