154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

Fjarskipti í dreifbýli.

[11:29]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu hér og einnig hæstv. ráðherra. Hér hefur sannarlega margt áhugavert komið fram. Forsenda vaxtar á landsbyggðinni er byggðastefna, öflug fjarskipti og gott vegakerfi. Mikilvægi fjarskipta fyrir vegfarendur eykst stöðugt, sér í lagi þegar við hugsum um öryggi vegfarenda. Notkun leiðbeinandi tækja sem eru í snjalltækjum nútímans eykst hratt og í nánustu framtíð er líklegt að við endum á að keyra um í sjálfkeyrandi bílum sem verða mjög líklega komnir á vegi landsins áður en langt um líður. Þá mun almennilegt fjarskiptasamband, burt séð frá því hvar á landinu við erum stödd, skipta miklu máli. Samkeppnishæfni sveitarfélaga og samfélaga snýr að tryggu fjarskiptasambandi. Fjarskiptafélögum er ekki skylt samkvæmt sömu tíðniheimildum að auka útbreiðslu sína á vegarköflum sem ekki teljast til stofnvega. Þá leitar hugurinn á fjölmenna ferðamannastaði sem liggja fjarri stofnvegum. Einnig þarf að huga að sjófarendum og er mér sérstaklega hugsað til minni báta sem nú er á strandveiðum því að víðast hvar er vel nothæft fjarskiptasamband, sem betur fer, nema þá kannski helst fyrir minni báta sem halda sig nærri háum fjöllum og klettum eins og á Hornströndum og fleiri stöðum víða um landið. Það skiptir líka miklu máli að fjarskiptasendar séu með öruggt varaafl því að það hefur brunnið við að í rafmagnsleysi verði þessir sendar rafmagnslausir. Hér er kannski sérstaklega verið að horfa til þess að það eru mörg heimili, eins og hér hefur komið fram, sem eru ekki í góðu fjarskiptasambandi, en það eru líka viðkvæmir staðir sem eru með þessa fjarskiptasenda sem detta út og þá er sú tenging dottin út í rafmagnsleysi. (Forseti hringir.) Við þurfum núna að leggjast öll á eitt við að byggja upp þá fjarskiptainnviði sem þarfnast betrumbóta og tryggja þannig á sama tíma öryggi allra landsmanna.