154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

tekjustofnar sveitarfélaga.

1114. mál
[15:22]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég má til með að koma hér upp og ræða aðeins og tala um þetta frumvarp til laga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Mér þykir þetta vera mjög mikið framfaraskref og bara gott mál svona þegar ég skoða þetta í fyrsta sinn. Ég held að fátækt barna og fátækt hjá íslenskum fjölskyldum sé stundum vanmetin og að þetta sé skref til að tryggja að öll börn fái að borða alla vega fimm daga vikunnar. Það er bara þannig að það eru börn á Íslandi sem eru svöng og það er ekki til matur heima. Því miður er þetta stundum staðan og fátækt miklu meiri en flestir, held ég, geri sér kannski grein fyrir. Þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að börn geti komið í skólann og fengið að borða. Að fá heita máltíð einu sinni á dag skiptir rosalega miklu máli fyrir rosalega margar fjölskyldur og fyrir fullt af börnum. Þar sem ég er barnaverndarstarfsmaður, þegar ég er ekki varaþingmaður og þingmaður, þá sé ég þessa hlið samfélagsins mjög skýrt og tel það vera mjög mikið framfaraskref að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar.

Ég má líka til með að tala um að það var mikið rætt, þegar Covid stóð sem hæst og skólum var lokað, um upplýsingar sem bárust, og þá sérstaklega frá Bandaríkjunum, um að börn mættu ekki í skólann og fengju þá ekki að borða. Þetta var kannski eitthvað sem margir áttuðu sig ekki á, að það eru börn í öllum samfélögum sem borða kannski oftast mest í skólanum. Við þurfum bara að átta okkur á því og taka utan um börnin í skólakerfinu. Þar höfum við aðgang að þeim og þar getum við tryggt að þau fái skólamáltíðir, eina heita máltíð á dag, alla vega fimm daga vikunnar.

Ég tel þetta vera rosagott mál. Mér finnst líka mjög gott að þessu verði ekki úthlutað, að fjármagnið fari ekki til allra, þ.e. ef einhver sveitarfélög ætla ekki að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fái þau ekki þetta fjármagn; sveitarfélögin eiga ekki að geta ákveðið það sjálf hvað þau gera við þetta fjármagn. Ég vona að sem flest sveitarfélög taki þetta upp og bjóði upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir bara sem lengst. Þetta er flott mál og vonandi verður þetta að lögum sem fyrst.