154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

tekjustofnar sveitarfélaga.

1114. mál
[15:31]
Horfa

:

Virðulegi forseti. Ég vil koma hérna upp og fagna því sem hér er fram komið. Þetta var mikilvægur liður í því að tryggja kjarasamninga og í grunninn, í mínum huga a.m.k., ákaflega gott mál. Það tryggir ákveðna jöfnun og jöfn tækifæri og jafnar aðstæður barna í skólum. Mig langaði að koma aðeins inn á það, af því að hér var vísað í reynslu fólks á sveitarstjórnarstiginu í fyrri ræðum, að ég hef persónulega reynslu af því að fara þessa leið í Skútustaðahreppi fyrir norðan, sem nú heitir Þingeyjarsveit eftir sameiningu, þar sem þetta skref var stigið. Reynslan af því var ákaflega góð. Í þessu máli eru börnin í forgrunni og það skiptir feikilega miklu máli að aðstæður þeirra séu með allra bestum hætti. Við erum auðvitað að gera mjög margt í okkar löggjöf til að færa til fjármuni skattgreiðenda og mér hefur alltaf að einhverju leyti þótt nokkuð sérkennileg andstaðan við þetta tiltekna mál af því að ég á bágt með að skilja hvers vegna við getum ekki bara sameinast um að gera aðstæður barnanna okkar í skólum sem allra bestar. Það er alveg rétt að margir, líklega flestir foreldrar, geta fætt og klætt börnin sín og tryggt þeim viðunandi aðstæður þegar kemur að máltíðum í skólum. Engu að síður er það staðreynd að ef við getum byggt upp kerfi þar sem öllum er einfaldlega tryggt gott fæði, aðgengilegt, og að aðstæður barnanna verði með þeim hætti að þeim líði vel í þeim aðstæðum sem þau eru í langan hluta af sínum uppvaxtartíma þá sé það einfaldlega hið besta mál.

Mig langaði líka að nefna að þetta er auðvitað liður í samkomulagi til að ná lendingu í kjarasamningunum og að því leyti er það gott. Ég vonast til að það verði samstaða um að klára þetta og fara þessa leið því að ég held að með þessum hætti séum við að stíga jákvætt og gott skref til að tryggja ákveðin grundvallarréttindi barna og er það vel.