154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

markaðssetningarlög.

1077. mál
[16:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til markaðssetningarlaga, sem er mál nr. 1077 á þskj. 1573. Frumvarp þetta er samið í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Um einstök atriði frumvarpsins var leitað ráðgjafar hjá Lagastofnun Háskóla Íslands. Þá var sérstakt samráð haft við Neytendastofu um efni frumvarpsins. Með frumvarpinu er lögð til heildarendurskoðun á lögum nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Jafnframt felur frumvarpið í sér að endurskoðuð eru lög nr. 62/2005, um Neytendastofu, og lög nr. 20/2020, um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd. Tillaga frumvarpsins er að ný heildstæð markaðssetningarlög leysi framangreind lög af hólmi.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að innleiða hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2161, sem gjarnan er nefnd tilskipun um nútímavæðingu á sviði neytendamála og er, virðulegur forseti, væntanlega nr. 2019/2161. Tilskipunin felur í sér breytingar á fjórum eldri Evrópugerðum á sviði neytendaverndar sem allar hafa verið innleiddar í íslenskan rétt með gildandi markaðssetningarlögum, þ.e. lög nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sem eru fyrstu heildarlögin um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd á Íslandi. Undirliggjandi markmið laganna er að efla virka samkeppni í viðskiptum og tryggja gott neytendaumhverfi. Lögin eru almenn lög sem taka til hvers kyns atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum. Lögin eru þannig mikilvæg rammalöggjöf fyrir atvinnurekendur og neytendur á Íslandi. Af þessu leiðir að mikilvægt er að þau séu til virkrar skoðunar á hverjum tíma og séu þannig úr garði gerð að þau tryggi almannahagsmuni og mæti þörfum atvinnulífsins og neytenda hverju sinni.

Breyttir viðskiptahættir, aukin netviðskipti og tækniþróun síðustu ára hafa gert atvinnurekendum kleift að markaðssetja sig með sífellt nýjum aðferðum. Þetta hefur meðal annars valdið óvissu fyrir atvinnurekendur og neytendur um hvaða viðskiptahættir séu heimilir og hverjir ekki. Reynsla síðustu ára af framkvæmd laganna hefur einnig leitt í ljós að lögin virka um margt brotakennd og óaðgengileg og talsvert er um skörun og tvítekningu efnisreglna. Þá eru ákvæði laganna sem innleiða Evrópugerðir mörg hver ekki nógu skýr eða gagnsæ til að tryggja samræmda túlkun og beitingu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu auk þess sem skort hefur á samþættingu þeirra við önnur ákvæði laganna.

Ákvæði um neytendavernd og viðskiptahætti í atvinnustarfsemi hér á landi hafa ekki að öllu leyti fylgt réttarþróun annars staðar á Norðurlöndum undanfarna áratugi. Norræn markaðssetningarlög hafa til að mynda verið uppfærð oftar með hliðsjón af framkvæmd og orðalag þeirra hefur verið samræmt og fært til nútímahorfs. Ákvæði norrænu laganna eru því að sumu leyti nákvæmari og aðgengilegri en gildandi íslenskra laga.

Með frumvarpinu er sem áður segir lagt til að sett verði ný heildarlög á sviði markaðssetningar. Markmið heildarendurskoðunarinnar er í fyrsta lagi að ný markaðssetningarlög stuðli að virkri samkeppni í viðskiptum og tryggi öfluga neytendavernd sem taki mið af tækniþróun síðustu ára. Í öðru lagi að lögin séu einföld, skýr, aðgengileg og tæknihlutlaus og leggi ekki óþarfabyrðar á atvinnulífið. Í þriðja lagi að tryggja eins og kostur er að ákvæði laganna sem innleiða Evrópugerðir endurspegli aðeins þær EES-skuldbindingar sem við eiga og að gætt sé samræmis við orðalag þeirra. Er með þessu frumvarpi því stutt við það meginmarkmið í stefnu stjórnvalda að styrkja samkeppni innan lands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs auk þess að draga úr hindrunum í gildandi regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk.

Virðulegi forseti. Að því er efnisvalið, efnisatriði frumvarpsins, varðar vil ég vekja athygli á nokkrum af helstu breytingum og nýmælum sem frumvarpið felur í sér frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er það reglan um góða markaðshætti. Í gildandi markaðssetningarlögum er að finna almenna reglu um góða viðskiptahætti. Almenna reglan var fyrst lögfest með lögum árið 1978 og hefur orðalag hennar haldist svo til óbreytt síðan þá. Ákveðinnar varfærni hefur gætt við að beita reglunni, m.a. vegna óskýrleika um efnistök hennar og samspil við önnur ákvæði laganna. Um nokkurt skeið hefur því legið fyrir að þörf væri á endurskoðun ákvæðisins. Með frumvarpinu er ætlunin að bregðast við þessu og skýra betur efnisinnihald og aðferðafræði við beitingu almennu reglurnar auk samspils hennar við þau ákvæði frumvarpsins sem innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 29/2005, um óréttmæta viðskiptahætti. Aukinheldur er ætlunin að uppfæra ákvæði til samræmis við réttarþróun annars staðar á Norðurlöndum síðustu áratugina. Í frumvarpinu er lagt til að reglan um góða markaðshætti verndi ekki einungis neytendur og atvinnurekendur heldur einnig almenna samfélagshagsmuni. Brýnt þykir að texti ákvæðisins endurspegli allar þrjár tegundir verndarhagsmuna til að taka af vafa um beitingu reglunnar að þessu leyti. Frumvarpinu er þannig ætlað að skapa meiri vissu um hvaða háttsemi fellur undir almennu regluna um góða markaðshætti og hvaða háttsemi fellur undir ákvæði frumvarpsins sem innleiða tilskipunina um óréttmæta viðskiptahætti.

Í öðru lagi er innleiðing tilskipunar um nútímavæðingu á sviði neytendamála. Tilskipunin um nútímavæðingu felur í sér ýmsar breytingar á gerðum sem innleiddar eru í gildandi markaðssetningarlögum og endurspeglast það í frumvarpinu. Meðal helstu breytinga eru ný og breytt hugtök, nýtt ákvæði um markaðssetningu vöru yfir landamæri, ný ákvæði um leitarniðurstöður og umsagnir á netinu og ný ákvæði um einkaréttarleg úrræði neytenda vegna brota gegn ákvæðum tilskipunarinnar.

Í þriðja lagi er meginreglan um íslensku. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði grein sem leysi af hólmi þrjú ákvæði í gildandi lögum sem gera kröfu um að upplýsingar séu veittar á íslensku. Með frumvarpinu er gengið lengra en í gildandi lögum um að gera kröfu um að auglýsingar skuli vera á íslensku. Orðalag gildandi ákvæðis og umfjöllun um hana í lögskýringargögnum kveða ekki skýrt á um þá meginreglu að auglýsingar á Íslandi skuli vera á íslensku. Sjaldan hefur reynt á þetta ákvæði laganna frá setningu þeirra en í nokkrum tilvikum hefur Neytendastofa beint tilmælum um þetta efni til atvinnurekenda. Í frumvarpinu er því lagt til að skerpt verði á þeirri meginreglu að allar auglýsingar skuli vera á íslensku með það að markmiði að styrkja stöðu íslenskra neytenda og standa vörð um tungumálið. Breytingin er þannig hluti af þeirri viðleitni sem m.a. kom fram í sameiginlegri viljayfirlýsingu menningar- og viðskiptaráðherra og Neytendastofu sem undirrituð var 20. nóvember 2023, að auka vægi og sýnileika íslenskunnar í samfélaginu hér.

Í fjórða lagi eru viðskiptahættir sem beinast að börnum og ungmennum. Með frumvarpinu er lagt til nýtt ákvæði sem fjallar sérstaklega um viðskiptahætti sem beinast að börnum og ungmennum undir 18 ára aldri. Gífurleg tækniþróun hefur átt sér stað frá því að gildandi markaðssetningarlög tóku gildi árið 2005. Í samræmi við þessa þróun hafa viðskiptahættir atvinnurekenda í auknum mæli færst yfir á netið og þar með talið samfélagsmiðla þar sem mikill fjöldi barna og ungmenna eru notendur. Börn og ungmenni eru stór markaðshópur fyrir ýmsa atvinnurekendur og hefur tækniþróunin leitt til þess að auðveldara er að beina viðskiptaháttum sérstaklega að þeim. Börn og ungmenni eru sérstaklega berskjölduð fyrir viðskiptaháttum þar sem þau eru almennt trúgjarnari og áhrifagjarnari en fullorðnir. Með tilliti til framangreinds er talið æskilegt að setja sérstakt ákvæði sem varðar viðskiptahætti sem beinast að þeim. Markmið ákvæðisins er að tryggja betur réttarstöðu barna og ungmenna sem neytenda með því að skerpa á þeim kröfum sem gerðar eru til viðskiptahátta sem beinast að þeim.

Í fimmta lagi er nýtt ákvæði um óhæfilega samningsskilmála. Með frumvarpinu er lagt til almennt ákvæði um óhæfilega samningsskilmála. Greinin er nýmæli og kveður á um að atvinnurekendur og samtök þeirra megi ekki nota eða mæla með notkun samningsskilmála sem teljast óhæfilegir gagnvart neytendum. Samkvæmt frumvarpinu er Neytendastofu og dómstólum veitt skýr heimild til að banna notkun slíkra skilmála. Nokkur lagaákvæði einkaréttarlegs eðlis hafa verið sett í íslenskum rétti um að vernda neytendur gegn ósanngjörnum samningsskilmálum en almenn ákvæði allsherjarréttarlegs eðlis, sem taka sérstaklega til óhæfilegra samningsskilmála, hafa hingað til ekki verið sett í íslenskum rétti. Almennt séð er töluverður aðstöðumunur milli atvinnurekenda og neytenda við gerð neytendasamninga. Samningsskilmálar eru staðlaðir og samdir einhliða á forsendum atvinnurekanda fremur en neytenda. Þess vegna bregður því við að jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila sé raskað neytanda í óhag. Á tímum stafvæðingar og sífellt flóknara umhverfis neytendakaupa er enn fremur þörf á að neytendur séu verndaðir gegn ósanngjörnum samningsskilmálum.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mikið framfaramál að ræða og réttarbót á sviði neytendamála með uppfærslu og nútímavæðingu á gildandi löggjöf. Frumvarp þetta er hluti af heildarstefnumótun sem nú á sér stað á sviði neytendamála og að mínu mati þurfum við að gefa neytendamálum meira vægi og stuðla að aukinni neytendavitund í landinu. Í þessu skyni mun menningar- og viðskiptaráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í neytendamálum þar sem verður að finna annars vegar skýra stefnumörkun, meginmarkmið og áherslur og hins vegar aðgerðaáætlun um tilteknar aðgerðir á þessu málefnasviði sem eru þegar í vinnslu eða eru væntanlegar á næstu mánuðum með það fyrir augum að efla neytendavernd í landinu og styrkja þennan mikilvæga málaflokk.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta felur ekki í sér nein ný eða aukin verkefni fyrir opinbera aðila eða hefur að öðru leyti fjárhagsleg áhrif fyrir ríki eða aðra aðila. Lagasetningin hefur í för með sér samfélagslegan ávinning sem felst í bættri neytendavernd og skýrari kröfum til atvinnurekenda. Ég legg hér til, að lokinni þessari umræðu, að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til frekari umfjöllunar.