154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

úrræði varðandi húsnæði og lítil og meðalstór fyrirtæki í Grindavík .

[15:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra varðandi viðbrögð stjórnvalda við ástandinu í Grindavík og þá sérstaklega með vísan til stöðu lítilla og millistórra fyrirtækja hverra fulltrúar áttu fund með hæstv. forsætisráðherra í liðinni viku, hafi ég skilið fréttaflutning rétt. Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað hafi komið út úr þeim fundi og hver afstaða ráðherrans sé til óska fyrirtækjanna og jafnframt hver afstaða ráðherrans sé til óska þeirra 200–300 húseigna sem ekki falla undir upphaflegt úrræði stjórnvalda hvað uppkaup á íbúðarhúsnæði varðar. Eins og við þekkjum eru fjölbreyttar ástæður fyrir því hvers vegna þessar 200–300 íbúðir falla utan þess ramma sem ríkisstjórnin teiknaði upp um uppkaupin. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að einhverjar þessara eigna falli undir sambærilega lausn og þegar hefur verið boðin hluta íbúða og íbúðareigenda og meiri hluta eigenda fasteigna eða hvort búið sé að draga línu í sandinn og ekki verði litið til frekari lausna hvað þær 200–300 húseignir varðar. En sem sagt: Hvað kom út úr fundinum með litlu og millistóru fyrirtækjunum eða fulltrúum þeirra og hver er afstaða ráðherrans til þeirra óska sem þar komu fram? Síðan þetta varðandi íbúðirnar og húsnæði sem var ekki skráð á kennitölur þeirra sem í þeim bjuggu þegar eldsumbrotin hófust. Hver er afstaða ráðherrans til mögulegra frekari lausna í þeim efnum?