154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Tap af völdum náttúruhamfara á heimsvísu árið 2023 er talið hafa verið í kringum 250 milljarðar dollara og einungis 95 milljarðar af því tjóni féllu undir tryggingar. Á heimsvísu hefur einn af hverjum 20 íbúum sem búa á þessari jörð þörf fyrir aðstoð vegna hamfara af völdum manna eða náttúru. Það eru tæplega 400 milljónir manns. Af þeim hafa 110 milljónir þurft að flýja heimili sín og um 260 milljónir búa við fæðuskort eða hungursneyð. Þörfin á fólki með sérhæfða menntun á sviði hamfarafræða hefur því aldrei verið meiri. Kennsla á þessu sviði fer fram víða um heim, m.a. hér á landi, eins og ég fjallaði um í minni fyrri ræðu. Ég tel að tækifæri felist í því að bjóða upp á þverfaglegt nám á þessu sviði hér á landi, ekki bara í samstarfi innlendra háskóla heldur með því að byggja upp þverfaglegt samstarf háskóla víða um heim á þessu sviði. Hvernig fjármagna á þetta nám er auðvitað góð spurning sem hæstv. ráðherra nefndi einmitt í sinni ræðu. Það er mikilvægt að horfa út fyrir það box sem notað er í dag til að fjármagna háskólanám. Þannig mætti t.d. leita til ýmissa erlendra sjóða til að fjármagna þátttöku nemenda frá þróunarlöndum í þessu námi. En það er mikilvægt að ekki sé einungis boðið nám á sviði hamfarafræða heldur ætti Ísland að setja sér það að verða alþjóðleg miðstöð rannsókna á þessu sviði. Við þurfum nefnilega að tryggja að nýjungar í tækni séu nýttar til þess að gera allt viðbragð við náttúruhamförum skilvirkara og öflugra. Það er von mín að þessi umræða leiði til þess að við tökum fyrstu skrefin í að byggja upp nám og rannsóknir á þessu sviði.