154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[12:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir hans ræðu. Ég vil spyrja hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta plagg sé bara vitnisburður um orkuleysi þessarar ríkisstjórnar bæði í hugsun og í framkvæmd. Það virðist vera einhvern veginn vera að orka ríkisstjórnarinnar hafi eingöngu farið í það að gera sem minnst og síðan að hugsa um á hvaða ráðherrastól rass þeirra eigi að vera og skipta reglulega þar um. Er hann ekki sammála mér um að það sé svolítið skrýtið ef við förum með — við erum að tala um hvar við eigum að slá af orkunni. Ég segi að það að minnka smá ál eigi ekki að vera neitt mál, en að nota olíu fyrir verksmiðjur til að brenna við að framleiða matvæli, hvort sem það er fyrir dýr eða menn, það er fáránlegt. Þá held ég að ég taki nú frekar álið til hliðar bæði út frá mengun séð og svo er líka miklum mun mikilvægara að við einbeitum okkur að matvælaframleiðslu. Og síðan koma auðvitað heimilin.

En mig langar af forvitni að heyra hvað honum finnst um þetta furðulega fyrirbæri sem nú er komið fram, þ.e. þessa milliliði í raforku. Það liggur við að þú þurfir eina tölvu og tengja þig við eitthvað og þá ertu orðinn milliliður í að selja rafmagn. Þetta er auðvitað líka orðinn ótrúlegur frumskógur þegar maður fer að horfa t.d. á rafvæðingu bíla, það hefur allt í einu sprottið upp hver raforkusalan á fætur annarri og þú stofnar ekkert svoleiðis nema til þess að græða. Á sama tíma gæti ríkisstjórnin verið búin að leysa þetta einfaldlega með landsnetinu. Landsnetið er alveg í klúðri vegna þess að ef þeir væru búnir að ganga almennilega frá því — þar erum við að tapa, ég man ekki hvað það var, 10 eða 15% orkunnar. Þannig að það er ekki orkuskortur heldur er orkuskorturinn bara afleiðing af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar undanfarin sjö ár.