154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:28]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið og stutta svarið er bara: Jú, vissulega eigum við að læra af öðrum þjóðum, ég tala nú ekki um ef þau reynast kannski ekki heillavænleg skrefin sem þau hafa tekið, að við séum ekki að stíga sömu skrefin. Það er líka spurning með hvaða hætti við getum gert þetta. Alla vega eins og staðan og markaðurinn eru í dag þá er ekki gagnsæi á markaðnum. Það gildir trúnaður um þá samninga sem eru gerðir við stórnotendur. Það er eitthvað sem þarf að skoða og það væri þá hægt að gera í heildarendurskoðun raforkukerfisins á Íslandi, sem er nauðsynlegt að ráðast í til þess að auka þetta gagnsæi þannig að hægt sé að fylgja því eftir og fylgjast með verði, ég tala nú ekki um ef kemur til endursölu, verði það raunin og niðurstaðan. En í rauninni er það samt þannig að ég held það sé leitun að landi eða þjóð sem er með jafn lágt raforkuverð og á Íslandi. Við búum að því. Vissulega er mikilvægt að halda þeirri stöðu og reyna að leita allra leiða til að hafa verð í lágmarki til heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja einmitt til að tryggja samkeppnisstöðu þeirra.