154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:39]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið og tek heils hugar undir þessar vangaveltur varðandi Reykjanes og stöðuna þar sem sýndi okkur svart á hvítu hversu mikilvægt dreifikerfið okkar er og þessi hringtenging á landinu öllu, að við náum að geta flutt orkuna frá einu svæði yfir á annað. Ég tala nú ekki um að hafa kannski bara plan B. Við erum auðvitað með gríðarlegan fjölda einstaklinga sem eru miklu meiri sérfræðingar í þessu en ég, sem eru eflaust að læra heldur betur af reynslunni núna í tengslum við þessar jarðhræringar á Reykjanesskaga og hvernig við getum tryggt betur heimilin og fyrirtæki, komi til jarðskjálfta, eldgosa eða flóða. Ég tel afar mikilvægt að við lærum af þessari reynslu og skoðum hvað við getum gert til þess að tryggja þessa stöðu enn frekar og hvernig við getum öll lagst á árarnar með því að bæta flutningskerfið okkar, efla það, sem og dreifikerfið. Þá er ég bæði að tala um vatn og raforku. En þetta er eitthvað sem við þurfum að búa við hér á landi, landi elda og ísa. Ég held að það sé bara afar mikilvægt því að eins og sérfræðingar hafa bent á þá er þetta bara upphafið að því sem koma skal þannig að við eigum kannski eftir að búa við þetta um nokkurra ára ef ekki áratugaskeið.