154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[15:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki í neinu samhengi að leggja til að nýta vatnsafl á Íslandi til fulls. Það er mjög fjarri því. Ég er bara að tala um að byrja á að nýta vatnsaflskosti sem eru í nýtingaráætlun, nýtingarhluta rammaáætlunar, þannig að það er mikill munur þar á. En staðan er auðvitað sú að til lengri tíma litið, burt séð frá þessum skammtímaaðgerðum sem framkölluðu það að menn voru að selja frá sér meira en þeir höfðu í hendi, ef svo má segja — ég gef mér að hv. þingmaður sé að vísa til þeirrar stöðu sem kom upp hér síðasta vetur. Bara miðað við þróun á raforkunotkun, raforkuþörf, þróun hagvaxtar, fjölgun í samfélaginu, fjölgun fyrirtækja, stækkun fyrirtækja, þá blasir við að það þarf meiri raforku til framtíðar en núna er framleidd. Þannig að þó að mjög afmarkaðir þættir geti tímabundið gert stöðuna enn þá verri er stóra myndin sú að meiri raforku er þörf inni í heildarkerfinu. Ég held að það sé óumdeilt (Forseti hringir.) bara ef við skoðum spár Landsnets, Orkustofnunar. Ég held að það sé hægt að vísa hvert sem er nema mögulega til Landverndar til að fá þá niðurstöðu.