154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[16:02]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða spurningu og sömuleiðis góðan fróðleik í sinni örstuttu ræðu í þessu andsvari. Er ég hlynntur markaði með raforku? Ég skal bara viðurkenna það, hv. þingmaður, að þetta er mér mjög erfið spurning. Fyrir það fyrsta þarf maður alltaf að sjá til hvers markaðurinn á að leiða. Hvernig getum við unnið með gagnsæjan markað, þar sem við ætlum að tryggja ákveðna forgangshópa hverju sinni? Rúmast það innan þeirra samninga sem við erum búin að skuldbinda okkur til að framfylgja o.s.frv.? Ég er vissulega hlynntur gagnsæi á þessum markaði, en lykilatriðið er alltaf það sama. Í mínum huga er það að almenningur og smærri fyrirtæki njóti forgangs og sömuleiðis innlend framleiðsla.