154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[16:15]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Jú, það er vissulega þannig að stundum ganga hlutirnir afskaplega rólega. Við skiptumst á svörum, ég og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, hér rétt áðan hvað varðar virkjunarkostina. Það sama á við þegar leggja á línur, þá þurfum við að endurskoða löggjöfina. Við getum horft til þess hvað við gerðum hér fyrr í vetur á þessu þingi þegar við tókum nokkra lagabálka úr sambandi til að hægt væri að verja heilt sveitarfélag, þ.e. Grindavík. Ef öll lög hefðu verið í gildi — við tókum þau bara úr sambandi til að hægt væri að fara í ákveðnar framkvæmdir þarna — þá er ég hræddur um að illa hefði farið fyrir því ágæta sveitarfélagi. Nóg er nú samt. Ég er því ekki að tala um að taka allt úr sambandi þannig séð en þetta er hliðstætt. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa til þess að einfalda hlutina vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt.