154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[16:42]
Horfa

Katrín Sif Árnadóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans um margt ágætu ræðu. Ég vildi spyrja hv. þingmann um þróun orkumála undanfarinn áratug. Nú hefur Ísland eins og flestar þjóðir hafið vegferðina í átt að orkuskiptum. Margir hafa kallað eftir því að til þess að við getum skipt út jarðefnaeldsneytinu sem er nýtt á skipaflotann, flugvélarnar og bílaflotann, þá þurfi að virkja meira. Nú hefur lítið verið um nýjar virkjanir síðasta áratug þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt um virkjanir hér á Alþingi. Telur hv. þingmaður að við þurfum að ráðast í gerð fleiri vatnsaflsvirkjana en þeirra sem þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar til að uppfylla aukna orkuþörf samfélagsins á næstu árum? Þá vil ég jafnframt athuga hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á því hvernig haga eigi gjaldtöku af almenningi fyrir orkunotkun, þ.e. hefðbundna orkunotkun venjulegra heimila. Á orkusala til almennings að lúta lögmálum markaðarins eða á almenningur að fá orkuna á kostnaðarverði í ljósi þess að hún er framleidd með því að beisla þjóðarauðlindina, þ.e. jökulárnar?