154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[16:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við erum að ræða það sem ríkisstjórnin hefur talað um að sé eitt af stóru málunum, stóru áskorununum sem við erum að glíma við þessa dagana. Það eru notuð stór orð eins og orkuskortur, stór orð frá ríkisstjórninni um orkuskort og það er ekki nægilega vel útskýrt, að mér finnst, til að réttlæta slík orð því að á bak við þau orð og þá framsetningu er að orkuskortur muni á einhvern hátt hafa áhrif til hækkunar á raforkuverð til heimila. Ég held að við verðum að slaufa þeirri umræðu eins hratt og við mögulega getum gert af því að eftir því sem ég best skil á bara öllum þingmönnum sem ég hef talað við og ber skynbragð á þá hefur enginn áhuga á að það gerist. Við höfum í raun valdið til að koma í veg fyrir að það gerist þannig að það er ekki rétt að fjalla um það eins og það sé einhvern veginn óhjákvæmileg þróun að orkuverð til heimilanna hækki á sambærilegan hátt og hefur gerst í Suður-Noregi, það er ekki eitthvað sem á að þurfa að gerast hérna. Ef það gerist þá er það af því að það er verið að klúðra einhverju hérna. Svo einfalt er það.

Staðan er sú að það er til miklu meira en nóg af orku til þess að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum orku á sanngjörnu verði. Þetta er dálítið það sem þetta frumvarp snýst um nema að það vantar orðin og skilgreininguna á sanngjörnu verði, sem m.a. þriðji orkupakkinn setti ákveðnar skyldur á stjórnvöld að tryggja. Sanngjarnt verð á að vera hluti af skyldum stjórnvalda. Það er rosalega mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við erum að skoða þetta frumvarp og orðræðu ríkisstjórnarinnar og orkumálaráðherra.

Í þessu samhengi verðum við líka að skoða annað sem er fjallað um hérna, þ.e. framsal orku þeirra stórnotenda sem hafa keypt orku og eru með langtímasamninga, heimild til þess að selja orku inn á kerfið ef þau nota hana ekki. Þetta er í rauninni framsal orku, alveg nákvæmlega eins og framsal kvóta. Það býr til ákveðinn markað og ákveðinn hvata til þess í rauninni að þurrka upp alla framleidda orku sem fer í langtímasamninga, búa til tilbúinn orkuskort og í þeirri einokunarstöðu sem þeir hafa sem eru með langtímasamningana geta þeir selt orkuna inn á markaðinn aftur á uppsprengdu verði. Í hnotskurn er það í rauninni það sem gerðist í Suður-Noregi. Ein stærsta ástæðan fyrir ástandinu þar er einmitt að það var tilbúinn skortur á orku í gegnum svona langtímasamninga þar sem ákveðnir aðilar bjuggu til milliliðaeinokun. Við höfum alveg vald hérna til þess að koma í veg fyrir að það gerist. Það verður í rauninni að vera þannig að þegar einhver kaupandi notar ekki orku vegna langtímasamninga eða einhvers svoleiðis, þá er henni einfaldlega skilað aftur til baka til upprunalega orkuframleiðandans sem getur þá selt hana aftur á viðmiðunarverði og samkvæmt þeirri ábyrgð sem hvílir á þeim orkuframleiðanda. Lykilatriði er að við búum ekki til einhvers konar milliliðakerfi sem getur blásið upp orkuverð, algjört lykilatriði. Þess vegna er svo ámælisvert að það vanti í þetta frumvarp ákvæði og skilgreiningar um sanngjarnt verð.

Það eru önnur atriði í þessu sem eru aðeins flóknari. Það er auðvelt að tala um orkuskort á vissum stöðum á landinu líka. En það er eiginlega frekar skortur á dreifingu orku frekar en orkuskortur með tilliti til þess hversu mikla orku við framleiðum. Þá er svo sem hægt að tala um orkuskort í framleiðslu á ákveðnum svæðum til að viðhalda styttri og ódýrari dreifikerfum eða einhverju þvílíku. Það er hægt að tala um einhverja svoleiðis útúrdúra í orkuskorti en svona núansar, sértilfelli, réttlæta ekki stóru orðin um orkuskort og ákveðinn áróður gagnvart heimilum og kjósendum. Þetta er ákveðinn hræðsluáróður sem lítur út fyrir að vera til þess fallinn að vekja upp væntingar eða nauðsyn á því að virkja meira. Ef það er orkuskortur sem mun hafa áhrif á verð á raforku til heimila er það leyst með því að virkja meira. Þetta er bara rangt, einmitt út af því að stjórnvöld eiga að tryggja orku á sanngjörnu verði til heimila og einmitt af því að einungis um 5% af allri orkunni sem er framleidd fer til heimila. Það er til miklu meira en nóg af orku fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Ef við forgangsröðum orku þangað þá verður rosalega langt í að það verði orkuskortur fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Aðrir aðilar geta síðan bara keppt um afgangsorkuna á frjálsum markaði. Það á ekki hafa nein áhrif í rauninni á orkuverð til heimila. Það er bara allt annar pakki, tvennt aðskilið, eitthvað sem við verðum að passa að skilja að í umræðunni. Það eru annars vegar heimili og smærri fyrirtæki og hins vegar allir hinir, stórnotendur orku og þess háttar.

Það er hægt að setja þarna ákveðið svæði á milli sem varðar þjóðaröryggi, mikilvæga innviði, í rauninni matvæla- eða fæðuöryggi og þess vegna í rauninni sjálfbærni, t.d. hvað varðar loftslagsbreytingar og þess háttar. Óháð því þá er það ákveðið þjóðaröryggismál, sjálfstæði í rauninni, ásamt því að vera loftslagsmál að hætta að nota olíu, að hætta að þurfa að flytja inn og kaupa olíu fyrir 100 milljarða á ári. Við getum auðveldlega réttlætt 1.000 milljarða útgjöld í innviðauppbyggingu til að losna við það að þurfa að brenna olíu. Það er ekkert mál. Við borgum það upp á tíu árum. Á tíu árum myndum við geta réttlætt 1.000 milljarða fjárfestingu í því að verða óháð olíunotkun. Það væri bara mjög góð fjárfesting.

Í því samhengi held ég að við séum á pínulitlum villigötum í þessari orðræðu um að hér sé orkuskortur. Undirliggjandi og á bak við þann áróður, að mínu mati, er pressan á að virkja meira þegar möguleikinn er sá að við séum einfaldlega búin að virkja nokkurn veginn allt sem er auðvirkjanlegt. Vissulega gefa tækniframfarir okkur aðra möguleika, ákveðinn sveigjanleika sem væri alveg jákvætt að skoða, tvímælalaust. Við eigum alltaf að skoða þetta vel og vandlega. En fyrir þessa umfamorku sem við framleiðum umfram þörf heimila og smærri fyrirtækja, 80% af orkunni sem við framleiðum, væri hægt að fá miklu hærra verð fyrir ef við leyfðum orkuskorti í alvörunni að raungerast fyrir þann markað. Það er bara í fína lagi. Af hverju er það eitthvað slæmt? Af hverju eigum við að vera að botnvirkja Ísland til þess að tryggja stóriðjunni raforku á lágu verði? Er það eitthvað sem við eigum bara að skrifa undir? Því að það er það sem er undirliggjandi við stóru orðin um orkuskort: Orkuskortur fyrir stórnotendur.

Ef við setjum umræðuna í það samhengi þá er mjög auðvelt að spyrja: Af hverju ættum við að skipta okkur af því, er það ekki bara í fína lagi? Ef það er orkuskortur fyrir stórnotendur þá þurfa þeir að keppast um orkuna, bjóða hærra í hana og við fáum meira af gjaldeyri fyrir sömu orkuframleiðslu. Meiri hagvöxtur, segja einhverjir. Er það ekki bara gott að fá meira fyrir þá orku sem við framleiðum? Hin hliðin á rökræðunni er að ef við virkjum meira þá getum við framleitt meira, selt meira og alls konar svoleiðis til þess að byggja undir velferðarsamfélagið. Við getum einfaldlega gert það líka með því að láta stórnotendur borga fullt verð og fá meira fyrir það sem við framleiðum nú þegar. Þannig að dæmið er í rauninni mjög einfalt. Við getum auðveldlega nýtt alveg 20% af orkunni sem við þegar framleiðum fyrir heimili, fyrir smærri fyrirtæki og fyrir orkuskiptin. Afganginn af orkunni: Gjörið svo vel, fullnýtið hana fyrir fullt verð. Við þurfum ekkert að framleiða meira, við fáum fullt verð fyrir hana. Ég held að það sé dágóður peningur. Ég reiknaði það út árið 2014, það er örugglega mjög breytt dæmi núna, bara upp á verðlagsuppfærslur o.s.frv., en sú orka sem við framleiðum fyrir álverin, þessi 80%, ef við værum að selja hana á meðalverði í Bretlandi — þá var pæling um að setja þennan blessaða sæstreng, við getum aldrei flutt alla þá orku með sæstreng en setjum bara upp þetta skáldaða dæmi, að við gætum það og gætum selt orkuna á meðalverði í Bretlandi, þessi 80%. Í staðinn fyrir að fá 60 milljarða eins og við virtumst vera að fá fyrir orkuna á þeim tíma, árið 2014 á Íslandi, til stórnotenda — 60 milljarðar er ansi gott. Uppreiknaða meðalverðið í Bretlandi, sama orkumagn, voru 360 milljarðar. Við þurfum í alvörunni að útskýra af hverju við gefum 300 milljarða verðmæti af framleiðslu til stórnotenda. Þetta er afsláttur til þeirra upp á 300 milljarða á verðlagi 2014, ég veit ekkert hvernig það er núna, örugglega einhver önnur stjarnfræðileg tala. Reynum að færa okkur aftur í 2014 og hugsa í þjóðhagslegum stærðum þess tíma.

Þetta er í rauninni grunnspurningin sem við þurfum að skoða í þessum geira. Við erum að selja okkur ódýrt. Af hverju ættum við að gera það? Það er engin ástæða til þess.

Ég heyrði að það kom beiðni um að vísa þessu máli aftur til nefndar á milli 2. og 3. umræðu. Þá myndi ég vilja leggja það til að nefndin skoðaði af hverju ekki er talað um sanngjarnt verð í þessu frumvarpi. Ef stjórnvöld eiga með innleiðingunni á þriðja orkupakkanum að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum örugga orku á sanngjörnu verði, hvers vegna er bara verið að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum örugga orku? Sanngjörnu verði er sleppt. Það er lykilatriði í þessu og það er lykilatriði að pæla í efnahagslegu afleiðingunum af því að búa til framsalsmarkað með orku. Það eru mistökin sem Noregur gerði. Ef við fetum í sömu fótspor og Norðmenn þá rætast allar bölsýnisspár þeirra sem voru að gagnrýna þriðja orkupakkann, ekki af því að þriðji orkupakkinn var slæmur heldur einfaldlega af því að stjórnvöld eru að klúðra málum enn einu sinni. Þau klúðruðu málum í hagrænu samhengi 2014 upp á 300 milljarða á ári. Er það ekki eitthvað sem við ættum að íhuga pínulítið alvarlega?

Áðan var talað um gagnsæið sem er verið að reyna að ná fram með þessum breytingum sem er algerlega nauðsynlegt. Þetta er almenn athugasemd sem við þurfum að hugsa um hérna sem þing, ríkisstjórn og hið opinbera í heild sinni. Hið opinbera gerir samninga á einn eða annan hátt og það er hægt að skýla sér á bak við viðskiptaleynd þannig að hið opinbera getur á einhvern hátt sagt: Fyrirgefið, viðskiptavinir okkar sem við vorum að semja við eiga rétt á viðskiptaleynd um innihald þeirra samninga sem við erum að gera við þá. Ég er 100% á móti því, algerlega andvígur svoleiðis rugli því að það er hluti af ákveðnu aðhaldi gagnvart stjórnvöldum, gagnvart opinberu valdi og valdhöfum í landinu, að valdhafar geti svarað fyrir það hvers konar samninga þeir gera. Þessi einkafyrirtæki sem er verið að semja við, stórnotendur í raforku t.d., eru samt, þótt þetta sé á einhverjum heimsmarkaði eða því um líkt, að semja við opinbera aðila og opinberir aðilar eru ég og þú og allir hérna úti í bæ, úti um allt land og hver einn og einasti á rétt á því að skoða innihald þeirra samninga sem er verið að gera fyrir þeirra hönd. Ég held að við þurfum að fara að endurhugsa þetta viðskiptaleyndarrugl sem er oft dregið upp í samhengi við það sem hið opinbera gerir, þetta er hugsanavilla sem við þurfum, held ég, að leiðrétta af því að ég held að dágóður hluti af þingheimi á undanförnum árum og áratugum hafi komið úr viðskiptalífinu þar sem fólk er vant því að það sé leynd varðandi svona viðskiptahagsmuni. En sjónarhornið hlýtur alltaf að vera gagnvart kjósendum almennt. Við erum í vinnu fyrir þau og við þurfum að svara fyrir þau verk okkar þegar við klúðrum málum, þegar við gerum lélega samninga, þegar við seljum okkur ódýrt. Það á ekki að vera hægt að fela sig á bak við hugtök um viðskiptaleynd þegar viðkomandi samningsaðili er að vinna fyrir alla þjóðina.

Ég fagna gagnsæinu en þetta gengur ekki nógu langt, það er bara þannig. Það breytir kannski því hversu góða samningsstöðu hið opinbera getur verið með. Það er bara í fína lagi. Það verður bara að hafa það. Hitt er einfaldlega mikilvægara og ef eitthvað er þá myndi það ekki kosta það mikið, alla vega væri ekki teljanlegur skaði af því í einhverju samhengi. Þannig að ég fagna því að málið fari til nefndar milli umræðna og kalla eftir nefndaráliti þar sem fjallað er um sanngjarnt verð. Kannski kemur frumvarp um það í haust eða eitthvað svoleiðis. Þá er hægt að klára þennan hluta til að byrja með því að hann fjallar kannski aðeins um það hvernig leiðir til þess að skerða orku til ákveðinna aðila eru, en kannski síður um nákvæmlega það hvernig á að tryggja sanngjarnt verð til heimila og smærri fyrirtækja. Það er kannski minni þörf á því einmitt hérna því að eins og ég segi þá er ekki orkuskortur hvað varðar heimili og smærri fyrirtækja og í því ástandi þá ætti verðið í rauninni alltaf að geta verið sanngjarnt, þangað til kannski við klúðrum því og búum til framsalsmarkað með orku sem getur valdið því að við lendum í sama veseni og Noregur.