154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[17:30]
Horfa

Katrín Sif Árnadóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það fyrirkomulag sem var nýtt í fyrsta sinn í vetur og er hugsanlega að fara að ryðja sér til rúms á næstu árum og það er að Landsvirkjun grípi til þeirra aðgerða þegar lágt er í lónum að kaupa til baka forgangsraforku sem hún hefur þegar selt til stórnotenda. Telur hv. þingmaður að þetta sé lausn sem hægt sé að stóla á til langs tíma? Þá er það annað atriði sem maður hefur áhyggjur af vegna þessara endurkaupa og það er verðið til almennings. Munu þessi endurkaup leiða til þess að verð á raforku til almennings í kjölfar endurkaupanna muni hækka eða getum við heimilað það með einhverjum hætti án þess að brjóta gegn reglum EES um bann við ríkisaðstoð að rafmagn verði selt til almennings á lægra verði en því sem Landsvirkjun greiðir fyrir það í slíkum endurkaupunum?